133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

Lánatryggingarsjóður kvenna.

578. mál
[13:33]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Lánatryggingarsjóður kvenna er samstarfsverkefni félagsmálaráðuneytis, iðnaðarráðuneytis og Reykjavíkurborgar. Það var hv. þm. Samfylkingarinnar, Rannveig Guðmundsdóttir, sem í tíð sinni sem félagsmálaráðherra hleypti þessu mikilvæga verkefni af stokkunum með samkomulagi milli ofantalinna ráðuneyta og Reykjavíkurborgar og var samningur þar að lútandi undirritaður í ársbyrjun 1995. Sjóðurinn er í samstarfi við Landsbanka Íslands og saman veita þeir tryggingu fyrir lánum til kvenna.

Meginmarkmið Lánatryggingarsjóðs kvenna er að styrkja konur til nýsköpunar í atvinnulífi með því að veita ábyrgðir á allt að helmingi lána sem þær taka hjá Landsbanka Íslands til að fjármagna tiltekin verkefni. Ábyrgðin er veitt á grundvelli mats á arðsemi viðskiptahugmyndar sem konurnar leggja fram og veita m.a. atvinnuráðgjafar landshlutanna umsækjendum aðstoð og upplýsingar.

Í desember 2005 skipaði félagsmálaráðherra nefnd til að endurskoða starfsgrundvöll Lánatryggingarsjóðs kvenna og mun hún hafa skilað tillögum sínum til ráðherra um mitt ár 2006. Auk þess hefur verið unnin könnun á vegum Vinnumálastofnunar á meðal þeirra sem hafa fengið lánatryggingu hjá sjóðnum samkvæmt því sem fram kemur í nýlegri skýrslu forsætisráðherra um meðferð og framkvæmd ályktana Alþingis. Niðurstöður nefndarinnar sem og könnunin hafa farið hljótt og því spyr ég hæstv. félagsmálaráðherra:

Hvað líður störfum nefndar sem skipuð var í desember 2005 til að endurskoða starfsgrundvöll Lánatryggingarsjóðs kvenna? Ef nefndin hefur lokið störfum, hverjar eru niðurstöður hennar?