133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

Lánatryggingarsjóður kvenna.

578. mál
[13:35]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Eins og kom fram í máli hv. þingmanns og fyrirspyrjanda er Lánatryggingarsjóður kvenna samstarfsverkefni félagsmálaráðuneytisins, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins og Reykjavíkurborgar með það meginmarkmið að styðja konur til nýsköpunar í atvinnulífinu með því að veita ábyrgðir á allt að helmingi lána sem þær taka hjá Landsbankanum.

Félagsmálaráðherra skipaði nefnd, eins og einnig hefur komið fram, sem ætlað var að fara yfir starfsemi sjóðsins og koma fram með tillögur um hvernig skipa mætti þessum málum til frambúðar að teknu tilliti til annarra sjóða eða úrræða til stuðnings atvinnulífinu, óháð kynferði. Nefndin skilaði skýrslu til félagsmálaráðherra á síðastliðnu ári og hafa tillögurnar verið til skoðunar í félagsmálaráðuneytinu í samhengi við fyrirkomulag lánveitinga til kvenna annars staðar innan stjórnkerfisins.

Samkvæmt niðurstöðu skýrslunnar er ljóst að styrkir og lán til atvinnumála ná ekki til viðskiptahugmynda kvenna í sama mæli og viðskiptahugmynda karla og ósamræmis gætir í þeirri athygli sem kvenna- og karlaverkefni fá og því aðgengi sem hugmyndir kynjanna hafa að fjármagni. Sjónarmið kvenna virðast heldur ekki eiga jafngreiðan aðgang að stefnumótun opinberra sjóða. Konur njóta um 20% opinberra styrkja á Íslandi en karlar 80%. Þá hafa karlar verið skipaðir í 80% sæta í úthlutunarnefndum á vegum hins opinbera. Til að breyta þessari stöðu til samræmis við jafnréttismarkmið ríkisstjórnarinnar og þær leiðbeiningar sem norræna ráðherranefndin hefur sent frá sér er nauðsynlegt að líta á kvennaverkefni sem hluta af heildinni en ekki sérstakan tímabundinn málaflokk sem stendur utan við stefnu stjórnvalda í atvinnu- og nýsköpunarmálum almennt. Til þess að ná tilskildum árangri þarf því að ráðast í viðamikla endurskoðun á úthlutunarreglum þeirra sjóða sem nú eru starfandi, fjölga konum í úthlutunarnefndum og efla og styrkja sjóðakerfið þannig að það nýtist báðum kynjum eins og fram kemur í skýrslu nefndarinnar.

Markmið þeirra aðgerða sem endurskoðunarnefndin gerir tillögu um er að tryggja að konur alls staðar á landinu hafi aðgang að sérhæfðri ráðgjöf sem tekur mið af þörfum þeirra og hjálpar þeim að ná markmiðum sínum. Mikilvægt er að tryggja aðgengi kvenna að fjármagni úr opinberum sjóðum til jafns á við karla og einnig að stjórnun og stefnumótun einstakra sjóða og verkefna. Meginmarkmiðið er að líta á stoðkerfi atvinnulífsins sem úrræði fyrir konur og karla og að taka tillit til þarfa mismunandi hópa til að fjölga konum í atvinnurekstri. Aðlaga þarf stoðkerfið báðum kynjum og auka almenna þekkingu og vitund á mikilvægi íslenskra kvenna fyrir efnahagslífið og ekki síður í tengslum við frumkvöðlastarfsemi, nýsköpun og fjölbreytni í atvinnulífinu.

Í tillögu til þingsályktunar um að endurskoða áætlun í jafnréttismálum, sem samþykkt var í ríkisstjórninni í gær, og lögð verður fram á Alþingi á næstu dögum, er tillaga um að gengið verði úr skugga um að samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða sé lögð til grundvallar við töku ákvarðana um styrki, lán og fjárfestingar innan hins almenna stuðningskerfis atvinnulífsins. Í þingsályktunartillögunni er gert ráð fyrir að iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið hafi umsjón með slíkri könnun að því er varðar styrki, lán og fjárfestingar sem í boði eru á vegum þess og tiltekinna stofnana þess.

Umrædd nefnd leggur til að Lánatryggingarsjóður kvenna og styrkir til atvinnumála kvenna verði starfræktir þar til endurskoðun á stöðu og stefnu opinberra sjóða hefur farið fram og ásættanlegur árangur náðst við samþættingu jafnréttissjónarmiða inn í þá stefnumótun. Ég lýk máli mínu á því að segja að sú vinna stendur yfir.