133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

starfsemi Samkeppniseftirlitsins.

564. mál
[13:52]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Í apríl 2004 og apríl 2005 bárust samkeppnisyfirvöldum tvö mál frá internetfyrirtækjum þar sem kvartað var vegna meintrar misnotkunar á markaðsráðandi stöðu. Þessar kvartanir liggja báðar enn óafgreiddar hjá Samkeppniseftirlitinu, annars vegar eftir rúma 1.000 daga og hins vegar eftir tæpa 700 daga. Á vefsíðu Inter, samtaka aðila er veita internetþjónustu, þ.e. netfyrirtækja sem ekki eru jafnframt símafélög, kemur fram að árið 2005 sé meðalafgreiðslutími á málum hjá Samkeppniseftirlitinu 16 mánuðir en þar er mikill málafjöldi talinn valda þessum töfum.

Árið 2005 er ritað á heimasíðu Inter, með leyfi forseta:

„Stjórn Inter lýsir verulegum áhyggjum vegna þess tíma sem fer í úrlausn mála á þessu sviði og telur að vegna þess hafi netþjónustur hér á landi og viðskiptavinir þeirra borið verulegan skaða af sem ólíklegt er að verði nokkurn tíma bættur.“

Þetta var árið 2005 og enn eru málin óafgreidd hjá Samkeppniseftirlitinu. Auk þess hefur Samkeppniseftirlitið ekki virt 9. gr. stjórnsýslulaga um málshraða en þar er m.a. kveðið á um að skýra skuli aðila máls frá því að afgreiðsla máls muni tefjast, upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta. Mér leikur því forvitni á að vita hvort hæstv. ráðherra fylgist með fjölda óafgreiddra mála hjá Samkeppniseftirlitinu og spyr:

1. Hvað eru mörg óafgreidd mál hjá Samkeppniseftirlitinu frá 2005–2007 og eldri?

2. Hvað telur ráðherra vera ásættanlegan afgreiðslutíma kvartana sem berast Samkeppniseftirlitinu?

3. Telur ráðherra líkur á að þjónustuaðilar og neytendur hafi borið skaða af drætti á afgreiðslu mála hjá stofnuninni?