133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

starfsemi Samkeppniseftirlitsins.

564. mál
[13:59]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra sagði að ráðuneytið eða stjórnvöld bæru ekki ábyrgð á fyrirtækjum í samkeppnisrekstri. Hæstv. ráðherra ber samt óvart ábyrgð á þessum málaflokki, hann gerir það. Ég tel það ástand sem kemur fram í svari hæstv. ráðherra vera algert ófremdarástand í nútímaviðskiptum þar sem hraðinn er mikill. Það skiptir mjög miklu máli sérstaklega fyrir minni fyrirtæki, sem fyrirspyrjandi nefnir dæmi um, sem eiga við ofurefli að etja þegar þau verða fyrir barðinu á mismunun í samkeppnisreglum, ef ekki er skorið strax úr um það hvort verið sé að brjóta á þeim eða ekki. Mér finnst það óásættanlegt að eftir skuli vera vel á þriðja tug mála sem eru orðin gömul. Ég skora á hæstv. ráðherra að sýna meiri metnað í þessum málaflokki en raun ber vitni, frú forseti.