133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

starfsemi Samkeppniseftirlitsins.

564. mál
[14:00]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Það voru athyglisverðar upplýsingar sem hér komu fram, t.d. að 28 kvartanir hefðu beðið frá því 2005 eða enn lengur. Varla er hægt að áætla að þau mál falli undir skilgreiningu hæstv. ráðherra á því að ekki sé um að ræða óeðlilegar tafir. Ég held að þetta hljóti að teljast óeðlilega langur tími og sérstaklega þegar í hlut eiga lítil fyrirtæki. Ég vek athygli á því að Inter, sem ég minntist á í framsögu minni, er væntanlega fyrst og fremst samtök lítilla fyrirtækja, þ.e. fyrirtæki sem er að berjast við risa eins og Símann t.d. Þarna eru lítil fyrirtæki látin bíða árum saman eftir að fá úrlausn mála.

Mér fannst hæstv. ráðherra ekki svara síðustu spurningu minni, hvort þjónustuaðilar og neytendur hafi borið skaða af þessum drætti og ég ætla bara að svara því fyrir hæstv. ráðherra. Það er, held ég, alveg öruggt að bæði neytendur og fyrirtækin hafa borið skaða af þessu og munu halda áfram að bera skaða af svo lengi sem Samkeppniseftirlitið er ekki betur í stakk búið til að sinna hlutverki sínu en sá vitnisburður sem hér kom fram áðan segir okkur. Það er allsendis óviðunandi að lítil fyrirtæki þurfi að bíða jafnlengi og hér hefur komið fram, þ.e. árum saman. Það verður að efla Samkeppniseftirlitið, það er niðurstaðan (SigurjÞ: Verður það bara ekki lagt niður aftur?) úr þessari umræðu.