133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

starfsemi Samkeppniseftirlitsins.

564. mál
[14:02]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég tek undir þau orð að efla þarf Samkeppniseftirlitið enn frekar. Ég tek einnig undir þau orð að full ástæða er til að hafa áhyggjur af þeim málum sem hafa dregist lengi eins og fram kom hjá hv. þingmönnum báðum. Ég er hins vegar ekki fær um að segja til um það hvort í þessum tilteknu málum sé um að ræða einhverja óeðlilega töf eða hvort lögmætar ástæður valda því að þau hafa dregist. Það væri líka ástæða til þess að hafa áhyggjur af því ef málum væri hraðað um of vegna þess að tiltekin sönnunarbyrði, tiltekin (Gripið fram í.) rannsóknarskylda hvílir á Samkeppniseftirlitinu og, eins og hv. þingmaður bætti við, á dómstólunum líka en það styttir heldur ekki þennan tíma ef til þeirra er leitað. Það er ekki aðeins þolandinn sem við þurfum að horfa til, við þurfum líka að horfa til aðstöðu þess sem grunaður er ef við gerum ráð fyrir að um sé að ræða mál þar sem síðan upplýsist að grunur eigi ekki við rök að styðjast þannig að um sekt sé að ræða.

Ég vil minna á að þótt ég taki eindregið undir það að efla þurfi þessa stofnun eins og fleiri sambærilegar stofnanir og reyndar dómstólana líka, þá er því þannig fyrir komið að lögum að Samkeppniseftirlitið er sjálfstæð stofnun og tekur ekki við fyrirmælum frá viðskiptaráðherra frekar en öðrum.

Ég tek ekki undir að almennt séð sé ófremdarástand og ég vara við því að menn verði með flýti í afgreiðslu þessara mála, þau eru mörg mjög flókin og þurfa mjög vandaða meðhöndlun, en um leið tek ég undir það að þeim þarf að hraða eftir öllum föngum.