133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

lesblinda.

490. mál
[14:05]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra um lesblindu. Hún er svohljóðandi:

1. Hver er fjöldi og hlutfall lesblindra barna í grunnskólum landsins, sundurliðað eftir árgangi?

2. Stendur til að endurskoða stuðning við lesblind börn í grunnskólum og ef svo er, hvernig?

3. Stendur til að endurskoða greiningarferli á lesblindu í skólum og ef svo er, hvernig?

Lesblinda er alvarlegt og útbreitt vandamál um allan heim. Gera þarf mikið átak í menntun barna með dyslexíu sem er samheiti yfir skyntruflanirnar lesblindu, skrifblindu og erfiðleika með stærðfræðinám og nær að mati þeirra sem til þekkja mun betur yfir þá fötlun sem dyslexía er talin. Eins og staðan er hefur alvarleg dyslexía og lesblinda verið ávísun á brottfall úr skóla, nemendur hrökklast fljótt frá bóknámi. Í þeirri flokkun og röðun sem fer fram í skólakerfi okkar í gegnum samræmd próf og annað flokkast þeir sem taparar og hrökklast úr skólanum og líður illa þar. Það er alþekkt að börn og ungmenni sem þjást af lesblindu og dyslexíu eigi við alvarleg vandamál að stríða í menntun og það er fullyrt af mörgum sem til þekkja að dyslexía sé eitt alvarlegasta vandamál í menntamálum íslensku þjóðarinnar. Félagsleg vandamál þessara barna og ungmenna eru mikil. Sumir telja að að um 11% þjóðarinnar séu lesblind og 20–25% hafi einkenni af lesblindu sem eru 30–60 þúsund Íslendingar.

Lesblinda eða dyslexía hefur verið tabú og lítið rætt um hana og ekki tekið nægilega vel utan um málið. Að sjálfsögðu þarf að finna bestu leiðirnar til að greina þennan vanda, tæknileg úrræði o.s.frv. Við erum að rannsaka þetta mjög vel, hvaða aðferðir virka best í lestri og stærðfræði. Til dæmis kemur fram að lestrarkunnáttu íslenskra barna og sérstaklega drengja hrakar mjög á umliðnum árum. Við þurfum að fara í mikið átak til að ná utan um lesblindu og dyslexíu. Þetta eru alvarlegar hindranir í námi, börnunum líður illa, þau fyllast vonbrigðum og reiði við upphaf skólagöngunnar, sjálfstraustið hrynur, þau verða oft einmana, flýja út úr félagslegu umhverfi og upplifa sig mjög niðurlægð í því skólaumhverfi sem við flest þekkjum. Þegar maður les lýsingu margra barna eða fullorðinna sem þjáðst hafa af dyslexíu var hver dagur í skóla alger martröð. Við verðum að bæta líðan þessara barna í skóla, virkja mannauð þeirra og þekkingu og búa til þannig skólakerfi að þau nái að þroskast þar og menntast eins og önnur börn. Við þurfum að vanda vel til úrræða og utanumhalds og því beini ég þessari fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra.