133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

Norræni blaðamannaskólinn.

577. mál
[14:22]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Eins og fram hefur komið áttu sér stað miklar breytingar á starfsemi Norræna blaðamannaskólans um áramótin en við endurskoðun Norrænu ráðherranefndarinnar á menningarstofnunum ráðsins árið 2005 var sérstaklega ákveðið að Norræni blaðamannaskólinn yrði ein þeirra stofnana sem lögð skyldi niður og kennsluþátturinn færður til danska blaðamannaháskólans. Norræna blaðamannamiðstöðin í Árósum eða NJC mun áfram gegna mjög margvíslegu og mikilvægu hlutverki, m.a. í námskeiðahaldi eins og fram hefur komið, fyrir blaðamenn og uppbyggingu tengsla við þær háskólastofnanir á Norðurlöndum er bjóða menntun og endurmenntun fyrir fjölmiðlamenn. Markmiðið með þessari starfsemi er ekki síst að efla samkennd meðal norrænna blaðamanna. Í tengslum við þessar breytingar, sem eru töluverðar, var nú áramótin skipað nýtt sérfræðingaráð.

Menntamálaráðuneytið hefur stuðst við þá venju við skipan í ráð og nefndir á norrænum vettvangi og raunar víðar að leita eftir tillögum til hagsmunasamtaka á borð t.d. við Blaðamannafélag Íslands. Það er rétt að árétta að slíkt er ekki skylda heldur venja og ábyrgðin er eftir sem áður alltaf hjá ráðherra, ekki hjá frjálsum félagasamtökum. Á Norðurlöndunum er gjarnan leitað til skiptis til samtaka blaðamanna og samtaka atvinnurekenda á fjölmiðlum. Hér á landi hafa fulltrúar í stjórn NJC í gegnum árin verið skipaðir í samráði við samtök blaðamanna en líka Samtök iðnaðarins. Þá hefur ráðuneytið þegar þess þykir þörf skipað fulltrúa úr ráðuneytinu sem varamann í nefndum og ráðum til að tryggja beint upplýsingastreymi til ráðuneytisins. Slíkt þykir sérstaklega mikilvægt þegar breytingar eiga sér stað þar sem verið er að móta framtíðarstarfsemi stofnana.

Sérfræðinganefndin við NJC hefur það hlutverk að gera tillögur um námskeið og samþykkja fjárhagstillögur NJC. Einnig verður það mikilvægt hlutverk á næstunni að móta nánara samstarf við þær stofnanir í einstökum ríkjum er bjóða upp á fjölmiðlanám. Talið var mikilvægt að fulltrúi Íslands að þessu sinni yrði einstaklingur sem hefði mikla reynslu af norrænni samvinnu, jafnt sem innra starfi fjölmiðla. Í bréfi sem ráðuneytinu barst frá Þór Jónssyni, sem lengi sat í stjórn blaðamannaháskólans sáluga, frá 9. janúar sl., er sett fram það sjónarmið að mikilvægt sé að sá sem situr í stjórn NJC fyrir Íslands hönd starfi á fjölmiðlum. Gaf Þór ekki kost á sér til áframhaldandi setu í stjórninni þar sem hann væri ekki lengur starfsmaður á fjölmiðli. Þegar kom að því að skipa í sérfræðinganefndina hafði ráðuneytið til viðmiðunar að mjög mikilvægt væri að fulltrúi Íslands hefði umfangsmikla reynslu af fjölmiðlastarfi, væri starfsmaður á fjölmiðli og væri ekki einungis fulltrúi fjölmiðlamanna er starfa á ritstjórnum heldur gæti jafnframt tengt starf sitt hagsmunum útgefenda. Þegar þetta sjónarmið var haft til viðmiðunar og í ljósi þeirra breytinga sem NJC er að ganga í gegnum vildi ráðuneytið leggja áherslu á að sá sem skipaður væri að þessu sinni hefði þekkingu og skoðanir á þeim viðfangsefnum sem um er að ræða en væri hvorki beintengdur hagsmunasamtökum né þeim samtökum sem bjóða upp á menntun fjölmiðlamanna. Þetta skiptir máli.

Þetta fyrsta tímabil stofnunarinnar í breyttu formi mun skipta miklu máli, enda er verið að móta framtíðarstarfsemi hennar í breyttu umhverfi og hvernig hún mun t.d. hugsanlega tengjast þeim íslensku háskólastofnunum er bjóða upp á nám fyrir fjölmiðlamenn. Menntamálaráðuneytið taldi í þessu ljósi að það gæti leitt til hagsmunaárekstra ef fulltrúi Íslands í sérfræðinganefndinni væri starfsmaður fjölmiðladeildar við háskóla, t.d. ef rætt væri um tengsl eða samstarf við viðkomandi háskóla. Einnig verður að taka fram að norrænar endurmenntunarstofnanir fyrir blaðamenn eru með sérstaka fulltrúa í nefndinni og er dr. Sigrún Stefánsdóttir, varamaður í nefndinni, í því hlutverki. Þar sem NJC er að ganga í gegnum mikið umbreytingaskeið er mikilvægt að vel takist til og að þessar breytingar heppnist til að tryggja NJC í sessi í þessu breytta umhverfi. Þær breytingar þarf að sjálfsögðu að gera í samvinnu við blaðamenn, útgefendur og háskólastofnanir.

Ég vil að lokum ítreka það, frú forseti, að það hefur ekki verið algild venja, þegar horft er til síðustu ára, að Blaðamannafélag Íslands skipi fulltrúa í stjórn NJC. Samtök iðnaðarins hafa átt þar jafna aðkomu, m.a. til þess að tengja útgefendur. Öll fjölmiðlafyrirtæki og allir fjölmiðlamenn eiga þó ekki aðkomu að þessum samtökum.