133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

Norræni blaðamannaskólinn.

577. mál
[14:29]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. „Í sérfræðingaráði Norræna blaðamannaskólans“ — stendur á áberandi stað á vefsíðu Norræna blaðamannaskólans, NJC — „sitja reyndir fjölmiðlamenn frá norrænu ríkjunum fimm samkvæmt tilnefningu blaðamannafélagsins í hverju ríki.“ Síðan kemur punktur og svo kemur þessi undantekningarsetning: „Þetta á þó ekki við um Ísland þar sem menntamálaráðherrann skipar fulltrúann. ...“

Sú lýsing sem hæstv. menntamálaráðherra gaf hér á tildrögum þessa máls er þannig að ekki er hægt að taka mark á henni. Talað er um hagsmunaárekstur ef Birgir Guðmundsson sitji í þessu sérfræðingaráði þó að þar sitji, eins og vissulega og réttilega kom fram í máli menntamálaráðherra, tveir fulltrúar frá endurmenntunarstofnunum á Norðurlöndum. Ef um hagsmunaárekstur er að ræða í einhverjum tilvikum koma varamenn inn og þannig leysum við hlutina í hinu íslenska lýðræði almennt. Ef um hagsmunaárekstur hefði verið að ræða, og það væri ekki skyndiskýring eftir á hjá ráðherranum og starfsmönnum hennar, ég veit ekki hvorir eru sekir um þetta klúður, hefði auðvitað verið haft samband við Blaðamannafélagið og bent á að því miður væri þessi tilnefning ekki fullnægjandi. Eða þá að menn hefðu snúið þessari tilnefningu við og tekið varamanninn og sett hann inn sem aðalmann og haft aðalmanninn varamann. Hægt hefði verið að gera þetta með ýmsu móti ef hæstv. menntamálaráðherra hefði í raun og veru viljað hafa þá hefð samráðs við fagfélögin, Blaðamannafélagið og samtök útgefenda sem ekki var heldur haft samráð við sem reyndin er í þessu efni.

Mig langar að vitna í Íslenska orðabók. Skýring á einum stað hljóðar svo, með leyfi forseta: „misnotkun valds; t.d. það að ólögmæt sjónarmið (einkahagsmunir, óvild, flokkshagsmunir e.þ.h.) ráði ákvörðun stjórnvalds.“ Þetta er skýring orðsins valdníðsla.