133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

Tæknisafn Íslands.

593. mál
[14:33]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég beini eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra um Tæknisafn Íslands:

1. Með hvaða hætti hefur menntamálaráðuneytið komið að undirbúningsstarfi vegna Tæknisafns Íslands og hvernig verður aðkomunni háttað meðan undirbúningur stendur yfir?

2. Hver eru viðbrögð ráðherra við þeirri niðurstöðu áfangaskýrslu undirbúningsnefndar um Tæknisafn Íslands að brýn þörf sé fyrir tæknisafn og hvað hyggst ráðherra gera til úrbóta?

Umrædd áfangaskýrsla, sem lögð var fyrir hæstv. menntamálaráðherra í lok síðasta árs, leiðir í ljós ákveðnar brotalamir í bæði mennta- og menningarmálum hérlendis hvað þetta varðar. Varðandi menntamálin stendur það kannski upp úr að nemendur hér á landi sitja ekki við sama borð og þekkist í nágranna- og viðmiðunarlöndunum. Erlendis eru heimsóknir í svokallaðar vísindastofur mikilvægur og órjúfanlegur þáttur í hvers konar raungreinakennslu sem er sú menntun sem við þurfum kannski hvað helst að efla í skólakerfi okkar. Hérlendis er hvergi að finna fullbúna vísindastofu sem getur þjónað þessu hlutverki. Reynt hefur verið að leysa þennan vanda með tilraunastofum í skólunum sem eru oft vanbúnar og standast ekki samanburð við svokallaðar upplifunarstofur sem gerðar eru til að taka á móti stöðugum straumi nemenda. Þessi þáttur upplifunar og lifandi kennslu er vanræktur og hafa margir raungreinakennarar bent ítrekað á það.

Áfangaskýrslan leiðir einnig í ljós alvarlegan ágalla í safna- og menningarmálum en það er söfnun og varðveisla á verkum íslenskra hugvitsmanna. Staðreyndin er sú að við getum týnt niður þjóðararfinum í þessari merkilegu grein vegna þess að enginn stofnun er til að halda þessu hlutverki uppi og halda til haga verkum frumkvöðlanna. Þeir fáu munir sem komast á söfn eru að öllum líkindum í ágætri varðveislu en þeir eru sjaldan til sýnis almenningi o.s.frv. Við höfum átt marga ágæta uppfinningamenn sem vert er að halda utan um og allt sem snýr að tækni og verkmennt hvers konar er að sjálfsögðu mjög mikilvægt að varðveita og vernda. Engin stofnun hefur þetta hlutverk og við þurfum að bæta úr því.

Ég held, frú forseti, að tæknisafn væri mjög ákjósanlegt og eftirsóknarverður hluti til að bæta í safnamenningu okkar og menntaflóru. Unnið hefur verið að undirbúningi slíks safns og sá maður sem hefur gengið hvað lengst fram í því heitir Valdimar Össurarson, ferða- og upplýsingafulltrúi í Flóa. Hann hefur unnið mikið starf í mörg ár og hefur fengið ákveðna fjármuni til undirbúnings, litla þó en þannig að vísir er kominn að málinu. Ég held að við þurfum að hreyfa þessu máli og lýsa því hér yfir að við ætlum að stefna að því að stofna Tæknisafn Íslands og koma mjög veglega að því máli, bæði Alþingi og ríkisstjórn, og stuðla að framgangi þess.