133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

Tæknisafn Íslands.

593. mál
[14:36]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Hugmyndir um stofnun Tæknisafns Íslands voru fyrst kynntar í ráðuneytinu 22. september 2004. Ferðamálafulltrúi Austur-Flóa, Valdimar Össurarson, kom þá á minn fund og kynnti þar hugmyndir um að stofnað yrði nýtt höfuðsafn, Tæknisafn Íslands, þörfina fyrir stofnun þess, auk þess sem hann færði rök fyrir því að í Austur-Flóa væri góð staðsetning fyrir slíkt safn. Jafnframt hefur safnaráð veitt umsögn og í svari þess í febrúar 2005 kom fram að það telur mikilvægt að forgangsraða útgjöldum ríkisins í málum höfuðsafna Íslands en ráðið telur aðkallandi að stofnsett verði Náttúruminjasafn Íslands eins og fjallað er um í safnalögum. Enn fremur var bent á að sérsafn á sviði tækniminja Íslands í heild væri æskilegt fyrsta skref fremur en nýtt höfuðsafn og er ég sammála því.

Þá hefur verið kynnt fyrir ráðuneytinu áfangaskýrsla frá árinu 2006, m.a. með áætlunum um stofnkostnað og rekstrarkostnað. Í bréfi ráðuneytisins frá 6. febrúar sl. er bent á að samkvæmt þeim hugmyndum sem skýrslan greinir frá um fyrirhuguð verkefni og starfsemi væntanlegs tæknisafns sé ljóst að það yrði ekki skilgreint sem safn samkvæmt safnalögum og gæti því ekki notið styrkja úr Safnasjóði samkvæmt 10. og 11. gr. þeirra laga. Jafnframt væri ljóst að í næsta áfanga undirbúnings þessa verkefnis þyrfti að huga að frekara samráði við önnur söfn í landinu til að skilgreina með hvaða hætti fyrirhuguð stofnun félli að þeirri safnastarfsemi sem fyrir er í landinu, og er þá einkum vísað til samráðs við Þjóðminjasafn Íslands sem er höfuðsafn fyrir minjavörslu í landinu samkvæmt gildandi safnalögum. Ég vil minna á að höfuðsöfnin eru þrjú samkvæmt gildandi safnalögum, þ.e. Þjóðminjasafn, Listasafn Íslands og Náttúruminjasafn, og vonandi verðum við búin að gera það að höfuðsafni áður en þetta þing er úti.

Í fjárlögum fyrir 2006 var Tæknisafni Íslands úthlutuð fjárveiting að upphæð 500 þús. kr. og í fjárlögum fyrir árið 2007 er tæknisafninu úthlutuð fjárveiting að upphæð 1 millj. kr. Jafnframt veitti menntamálaráðuneytið undirbúningsnefndinni sérstakan styrk til að bjóða erlendum fyrirlesara að koma til landsins og halda erindi í tengslum við uppbyggingaráform aðila. Af efnistökum í áfangaskýrslunni er ljóst að megináhersla undirbúningsnefndarinnar hefur verið á hvert gildi slíkrar stofnunar sem Tæknisafn Íslands er yrði fyrir menntakerfi landsins. Þar kemur einnig fram að höfundur skýrslunnar telur orðið tæknisafn dálítið villandi fyrir það sem hér er verið að fjalla um og bætir við, með leyfi forseta:

„Tæknisafn þarf ekki að vera minjasafn, og hér er ekki gert ráð fyrir slíku. Tæknisafn er fræðslustofnun sem samanstendur af þremur meginþáttum: Vísindastofu; tækniþróunarsýningu og varðveislu þjóðararfs á tæknisviði.“

Í 3. kafla skýrslunnar er lögð fram skilgreining á tæknisafni með mikilli áherslu á fræðsluhlutverk slíks safns með rekstri vísindastofu. Í 5. kafla er fjallað um tæknisafn sem menntastofnun. Í 6. kafla er fjallað um varðveislu tæknisögu og uppfinninga og þar kemur m.a. fram að líklegt er að væntanlegt tæknisafn eftirláti öðrum söfnum minjavörslu að mestu en geri fremur við þau sýningarsamninga og er þetta í samræmi við það sem sagt er í inngangi. Hins vegar er ljóst að undirbúningsnefndin hefur ekki kannað stöðu söfnunar og varðveislu tækniminja á Íslandi nema að mjög litlu leyti enn sem komið er og því ekki enn metið til fullnustu þörfina fyrir safn til varðveislu tækniminja hér á landi. Verður það væntanlega meðal verkefna í áframhaldandi starfi nefndarinnar. Í 7. kafla skýrslunnar er fjallað um vaxandi þörf fyrir stofnun af þessu tagi út frá þörfum íslensks menntakerfis og vísað í ýmsar skýrslur, rannsóknir og námskrár sem lýsa einkum þörf á auknu framboði innan skólakerfisins á fræðsluefni á sviði tækni- og raungreina.

Niðurstaða skýrslunnar er sú að nú sé orðin brýn þörf fyrir íslenskt tæknisafn sem menntastofnun sem tæki til kennslu á sviði náttúrufræða. Það er því verið að blanda þarna saman hugtökunum safn og menntastofnun. Afstaða mín er sú að það sé ótvírætt hlutverk menntastofnana á hinum ýmsu skólastigum að sinna hlutverki sínu samkvæmt lögum og reglugerðum og að menntun nemenda sé í samræmi við námskrár. Ekki eru uppi fyrirætlanir af hálfu ráðuneytisins að grípa til sérstakra ráðstafana á þessu sviði í tilefni af því sem fram kemur í skýrslunni. Minjasöfn af öllu tagi, þar með talin tækniminjasöfn og náttúruminjasöfn ekki síst, geta vissulega gegnt mikilvægu hlutverki til stuðnings við menntastofnanir en staða þeirra hlýtur þó ávallt að markast af ákvæðum safnalaga. Undirbúningsnefnd að stofnun Tæknisafns Íslands hefur skilað fyrstu áfangaskýrslu sinni og er eindregið hvött til að halda áfram starfi sínu. Á grundvelli framlags á fjárlögum ársins 2007 til Tæknisafns Íslands hefur ráðuneytið því óskað eftir frekari upplýsingum um undirbúning verkefnisins eftir því sem því miðar áfram.

Ég vil undirstrika það sem ég hef sagt hér, m.a. í tengslum við frumvarp sem er til meðferðar í menntamálanefnd, og það er um náttúruminjasafn, að ég tel mikilvægt að við samþykkjum það frumvarp og mótum síðan stefnu í samráði og samvinnu við safna- og náttúrufræðisamfélagið í samvinnu við forstöðumenn nýrrar stofnunar til þess einmitt að móta hér öflugt náttúruminjasafn sem verði líka vísindasafn, hugsanlega í tengslum við og í góðri samvinnu við svona tæknisafn sem á enn þá eftir að vinna betur úr tillögum sínum. Slíkt safn mun stuðla að enn betri (Forseti hringir.) upplýsingum og aðgengi nemenda og efla áhuga þeirra á sviði sem er mjög brýnt að efla og styrkja og það eru raungreinar.