133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

Tæknisafn Íslands.

593. mál
[14:43]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Ég held að hæstv. ráðherra kveiki ekki á mikilvægi þessarar hugmyndar. Þetta er framsækin og merkileg hugmynd, bæði hvað varðar skóla-, menningar- og safnamál. Ég held að fálætið sem kemur fram í orðum ráðherra gagnvart hugmyndinni spegli það að við þurfum að fara betur yfir málið. Tæknisafn á borð við þetta, þar sem mest áhersla væri lögð á söguna og upplifunina, upplifunarsafn — minjavarslan sjálf, hvort sem hún væri einhvers konar aukabúgrein eða ekki, er í rauninni aukaatriði. Þessi hugmynd hefur byggt á því að halda til haga bæði hugmyndum og verkum frumkvöðla í tækni- og verkmennt á Íslandi sem hafa um árabil verið að störfum og við ekki gefið nægjanlegan gaum. Við höfum kannski ekki átt marga mjög þekkta uppfinningamenn en fjölmargir hafa komið að því að þoka áfram og umbylta tækni- og verkmenningu okkar í gegnum árin og aldirnar. Þetta tengist að sjálfsögðu íslenskum atvinnuháttum, íslensku þjóðlífi o.s.frv. Ég held að mjög heppilegt væri að hafa sérstakt safn utan um verk- og tæknimál okkar. Skólalega séð getur þetta örugglega haft mikil áhrif. Það þarf að efla raungreinamenntun og allt sem lýtur að verk- og tæknimenntun með öllum tiltækum ráðum.

Ég tek því undir með hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur og skora á hæstv. ráðherra að gefa þessu máli miklu meiri gaum. Ég skora á hæstv. ráðherra að slá þessa hugmynd ekki af heldur þvert á móti að beita sér fyrir því að þessi góða umbótatillaga og fína og vel útfærða hugmynd, Tæknisafn Íslands, nái fram að ganga.