133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

Tæknisafn Íslands.

593. mál
[14:45]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Það er síður en svo verið að slá þessa hugmynd út af borðinu. Ég held að hv. þingmenn verði aðeins að hugsa sinn gang ef þeir ætla að misskilja orð mín þannig. Hins vegar fer ég eftir því m.a. sem safnaráð segir í umsögn sinni og mér finnst það frekar umhugsunarefni ef þau ætla að slá þá umsögn út af borðinu. Þar segir að tækniminjasafn sem höfuðsafn sé ekki raunhæft og við verðum einfaldlega að forgangsraða og forgangsröðunin er, og ég tek undir það, Náttúruminjasafn Íslands. Mér finnst það í rauninni frétt í sjálfu sér ef Samfylkingin ætlar að vera á móti þeirri forgangsröðun að efla og styrkja náttúruminjasafn. (Gripið fram í.) Þetta kemur fram hjá safnaráði og ég tek undir að það eigi að efla og styrkja nýtt náttúruminjasafn þegar það er orðið að lögum.

Hins vegar er ágætt að skynja þann samhljóm að mikilvægt sé að efla raungreinar og tækniþekkingu okkar og skólabarna okkar. Ég skipaði fyrir fáeinum missirum hóp sem skilaði mjög merkum tillögum um hvernig hægt er að efla raungreinamenntun í landinu. Þar komu m.a. fram hugmyndir í þá veru að stofna og setja á fót tilraunahús, sérstaklega með það í huga hvernig hægt sé og vekja og tengja áhuga barna á þeim heimi sem raungreinarnar og náttúruvísindin eru. Við erum enn að vinna með þær hugmyndir til að sjá hvernig hægt er að stuðla að því að slíkt tilraunahús verði að veruleika því að slíkt tilraunahús þar sem krakkarnir okkar gætu farið inn í og leikið sér svolítið í þeirri veröld sem raungreinarnar og náttúruvísindin eru er að sjálfsögðu heillandi. Þær hugmyndir hafa því í rauninni komið fram og verið er að vinna með þær. Ekki er verið að slá hugmyndir um tækniminjasafn út af borðinu, það er verið að vinna með þessum aðilum og leiðbeina fólki áfram. En ég undirstrika mikilvægi þess að við komum á fót og setjum á laggirnar öflugt Náttúruminjasafn Íslands.