133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

merkingar á erfðabreyttum matvælum.

589. mál
[14:55]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna mjög því svari sem ég fékk frá hæstv. umhverfisráðherra og ég fagna því ekki síður að hún og ráðuneytið ætli að ganga lengra en reglugerð Evrópusambandsins og láta merkja sérstaklega vörur þar sem notað hefur verið erfðabreytt hráefni við framleiðsluna. Ég hrósa hæstv. umhverfisráðherra fyrir að lýsa því yfir að verið sé að reyna að hraða ferlinu eins og mögulegt er. Ég veit að án efa munu margir gleðjast yfir því vegna þess að við Íslendingar erum núna í hópi með skussunum í þessu sambandi, við erum í hópi með Bandaríkjamönnum og nokkrum öðrum ríkjum í Ameríku, t.d. Argentínu, þar sem ekki hefur verið tekin upp sú skylda að merkja eigi erfðabreytta matvöru. Við höfum því verið svolítið sér á parti hvað varðar Evrópuríkin og önnur ríki utan Ameríku. Ég fagna því mjög að við eygjum það núna að fara úr hópi skussanna og yfir til þeirra sem eru lengra komnir í neytendavernd.

Varðandi orð hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar undrast ég þau mjög og það er ekki rétt hjá honum að segja að öll þessi umræða einkennist af fordómum gagnvart nútímaframleiðslutækni. (Gripið fram í.) Það sem einfaldlega er um að ræða í máli mínu og fyrirspurn minni og því sem hæstv. ráðherra er augljóslega að vinna að í ráðuneytinu snýst um að neytandinn geti tekið upplýsta ákvörðun, hann hafi val um hvað fæðan sem hann neytir inniheldur. Það er grundvallaratriði og það að frjálslyndur þingmaður skuli tala með þeim hætti sem hann gerði undrar mig svo vægt sé til orða tekið.