133. löggjafarþing — 76. fundur,  21. feb. 2007.

meðferðarúrræði fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga.

[15:30]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Undanfarnar vikur hefur farið fram mikil umræða í þjóðfélaginu um þær meðferðarstofnanir sem sinna sjúklingum sem háðir eru neyslu áfengis- og vímuefna. Því miður er upphaf þessarar umræðu grunur um slæma meðferð sjúklinga og fjármuna á meðferðarheimili sem hlotið hefur ríkisstyrki til rekstrar og meðferðarstarfsemi fyrir fíkniefnaneytendur og ljóst að mjög takmörkuð fagþekking var til staðar og eftirlit með starfseminni í algerum molum.

Ég bað ekki um þessa umræðu til að ræða málefni Byrgisins enda eru þau vonandi komin í réttan farveg hjá til þess bærum yfirvöldum. Umræðan tengist þó óneitanlega þeirri starfsemi og annarri sem rekin er á svipuðum forsendum, þ.e. meðferð áfengis- og vímuefnasjúklinga þar sem réttur þeirra til fagþjónustu vegna veikinda er ekki virtur. Orðaleikur er viðhafður um meðferðarstofnanir að því er virðist til þess eins að firra stjórnvöld ábyrgð á því að stór hluti þessara sjúklinga fær ekki viðunandi nauðsynlega fagþjónustu. Talað er um vistheimili, gistiheimili, stoðbýli, gistiskýli og meðferðarheimili svo eitthvað sé nefnt. Kostnaður við rekstur þessara meðferðarheimila eða stofnana er misjafn, rekstrarformið misjafnt, enda heyrir starfsemin ýmist undir félagsmálayfirvöld eða heilbrigðisyfirvöld. Það mætti ætla að þær stofnanir sem falla undir félagsmálaráðuneytið, að undanskilinni starfsemi Barnaverndarstofu og starfsemi sem tengist henni, fáist aðeins við aðhlynningu einstaklinga sem hafa lokið vímuefnameðferð á viðurkenndum heilbrigðisstofnunum innan heilbrigðiskerfisins og í samráði við fagfólk, að fenginni þeirri niðurstöðu að sjúklingurinn hafi hlotið viðunandi heilbrigðisþjónustu en þurfi nú á félagslegum úrræðum að halda. En, virðulegi forseti, sú er ekki raunin. Stofnanir sem heyra undir félagsmálayfirvöld styrktar af ríki og sveitarfélögum, félagasamtökum og einstaklingum reka, eins og fram kemur í skýrslu heilbrigðisráðherra til þingsins í mars 2005, áfengis- og vímuefnameðferð. Jafnvel að þeirra sögn bráðainnlagnir, afeitrun og lyfjagjafir án tilskilinna leyfa heilbrigðisyfirvalda og án þess að yfirvöld hafi brugðist við þessari vitneskju.

Í sömu skýrslu er þó skýr skilgreining á því hvað felst í meðferðarstarfi en þar segir, með leyfi forseta:

„Meðferð er skipulögð og einstaklingsbundin áætlun sem fylgt er undir handleiðslu fagmenntaðs fólks. … Lykilatriði er að til þess að meðferðin sé viðurkennd af heilbrigðisyfirvöldum þarf hún að fara fram undir handleiðslu sérfræðinga sem hafa viðurkennda faglega þekkingu og reynslu til að veita hana.“

Þannig á þetta auðvitað að vera. Því oftar en ekki er verið að meðhöndla mjög veika einstaklinga sem berjast við fleiri en einn alvarlegan sjúkdóm. Þessir sjúklingar eiga eins og aðrir sjúklingar sinn rétt, þeir eiga heimtingu á þjónustu fagfólks. Samt gerist það að um meðferð þeirra er samið við stofnanir sem geta ekki veitt fullkomna fagþjónustu jafnvel á sama tíma og stofnanir sem veita viðurkennda þjónustu og hafa fagþekkingu og reynslu fá ekki fjármagn til að sinna þessum hópi sjúklinga, eins og dæmin sanna hvað varðar rekstur sjúkrastöðvar SÁÁ.

Virðulegi forseti. Hver er það sem metur og ákveður að þessir sjúklingar eigi ekki rétt á meðhöndlun á viðurkenndri heilbrigðisstofnun? Hver er það sem metur og ákveður að trúarleg umhyggja, svo góð sem hún er, virki betur en fagleg heilbrigðisþjónusta við þessum illvíga sjúkdómi og fylgikvillum hans? Hverjir eru það sem eiga að axla ábyrgð á því að hópur fólks fær ekki þá faglegu þjónustu sem það á lögum samkvæmt rétt á? Getur verið að aðgerðir eða aðgerðaleysi í málefnum þessa fólks stjórnist enn af fordómum eða af því að í raun er ekki viðurkennt að hér sé um sjúkdóm að ræða? Ég beinu þessu og eftirfarandi spurningum til ráðherra:

Hvað ræður mati stjórnvalda á því hvenær meðferð sjúklinga sem háðir eru neyslu áfengis- og fíkniefna er innan heilbrigðiskerfisins eða að sjúklingar eru vistaðir til meðferðar á stofnun sem fellur undir heilbrigðismálayfirvöld og hver framkvæmir þá greiningu á sjúklingnum? Samræmast ákvarðanir og aðgerðir stjórnvalda í málefnum þessa hóps sjúklinga þeim niðurstöðum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar að áfengis- og vímuefnasýki sé sjúkdómur? Telur ráðherrann að réttindi þessara sjúklinga séu tryggð samkvæmt lögum um réttindi sjúklinga hvort sem meðferðarstarf fer fram á stofnunum heilbrigðiskerfisins eða félagsmála? Mun ráðherra beita sér fyrir því að rekstur þeirra meðferðarstofnana sem eru utan ramma heilbrigðiskerfisins verði skoðaður sérstaklega og færður undir yfirumsjón heilbrigðisyfirvalda og ef ekki, hver er þá ástæðan? Mun ráðherra beita sér fyrir því að starfsemi SÁÁ verði efld þannig að hægt verði að sinna langtímameðferð á stofnunum SÁÁ? Hefur verið mótuð heildarstefna um uppbyggingu og rekstur meðferðarstofnana í samræmi við ályktun Alþingis frá 3. mars 2002 og skýrslu ráðherra sem lögð var fyrir Alþingi í mars 2005?