133. löggjafarþing — 76. fundur,  21. feb. 2007.

meðferðarúrræði fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga.

[15:52]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Meðferðarmál eru ofarlega á baugi og taka umtalsvert pláss í fjölmiðlum þessa dagana. Fyrir því eru gildar ástæður og kannski ekki seinna vænna að gera almennilega úttekt á stöðu meðferðarmála almennt í samfélagi okkar. Ef eitthvað er orðið ljóst af þessari miklu umfjöllun þá er það einmitt hversu óljós staðan er þegar á heildina er litið. Spurningar hrannast upp og fólk reynir að greina ástandið. Það spyr: Hvernig tekur samfélagið á málefnum fíkla? Eru þeir sjúklingar og þar með viðfangsefni heilbrigðisyfirvalda eða eru þeir ógæfumenn og þar með viðfangsefni félagsmálayfirvalda?

Hvort sem er þurfa fíklar aðhlynningu, og það hvort sem þeir eru sjúkir á sál eða líkama af genetískum orsökum eða af illri meðferð í æsku, og það þarf að veita þá meðferð á samfélagslegum forsendum. Hverju sem um er að kenna varðandi fíknina er dagljóst að langt leiddir fíklar komast ekki óstuddir á fætur. Það er samfélaginu til góðs að þeir verði nýtir þjóðfélagsþegnar.

En hvers konar samfélag er það sem lætur fjölda einstaklinga í neyð líða fyrir þær sakir að menn koma sér ekki saman um hvar á að vista málaflokkinn eða hvernig á að meðhöndla hann í kerfinu? Fíklar eru ekki málaflokkur heldur manneskjur af holdi og blóði, manneskjur sem þurfa á stuðningi samfélagsins að halda. Það er ekki í samræmi við góða stjórnsýsluhætti að fela meðferð fíkla öðrum en þeim sem hafa til þess faglega burði. Þeir sem taka að sér meðferð fíkla verða að valda því mikilvæga verkefni. Ég held að það sé tímabært að við hugleiðum hvort samruni þessara ráðuneyta tveggja, heilbrigðisráðuneytisins og félagsmálaráðuneytisins, sé orðinn tímabær í þessu tilliti.