133. löggjafarþing — 76. fundur,  21. feb. 2007.

meðferðarúrræði fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga.

[15:57]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þá vitum við það. Framboðið er fínt fyrir þá sem eru háðir neyslu áfengis eða fíkniefna. Enginn sem háður er áfengi eða fíkniefnum er vistaður annars staðar en þar sem hann á að vera. Þá vitum við það. Við vitum að framboðið er það gott að allir þeir sem eru það langt leiddir að þeir flokkast sem sjúklingar eru á heilbrigðisstofnun.

Hvers lags þvaður er þetta? Hvers vegna varð meðferðarstofnun eins og Byrgið til? Vegna þess að fólk var á götunni, það var á götunni af því að hvergi var pláss fyrir það til að sinna því sem sjúklingum. Og hvers vegna var það sem hæstv. núv. sjávarútvegsráðherra bað um skýrslur á þinginu 2000–2001 og aftur 2003, sem við fengum svo í mars 2005? Var það vegna þess að ástandið væri í svona fínu lagi? Nei. Enda tala skýrslurnar sínu máli. Og það þýðir ekki að segja að stofnanir sem heyra undir félagsmálakerfið í dag, félagsmálaráðuneytið, séu bara ekkert að sinna sjúklingum. Þær eru að gera það, það kemur fram í skýrslunni. Þær segja skýrt og klárt: Við erum með afeitrun, við erum með bráðainnlögn, við erum með lyfjagjöf. Og hvað var gert? Akkúrat ekki neitt.

Árið 2005 stendur hæstv. ráðherra hér og segir okkur þetta, skilar skýrslu og við trúum því að þá sé tekið á málum. Nei, það var ekki gert. Aðstandendur ákveða heldur ekki hvert einstaklingarnir fara. Hæstv. ráðherra hlýtur eins og við að hafa orðið vör við að aðstandendur langt leiddra fíkniefnasjúklinga, þeirra sem neyta fíkniefna og áfengis, leita til okkar (Forseti hringir.) vegna þess að hvergi er hjálp að hafa fyrir sjúklinginn, sem er ekki bara veikur vegna neyslu (Forseti hringir.) heldur býr líka við alvarleg geðræn vandamál. Þetta er engin þjónusta.