133. löggjafarþing — 76. fundur,  21. feb. 2007.

meðferðarúrræði fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga.

[15:59]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Varðandi 6. spurninguna, um heildarstefnumótun, þá er það rétt að skýrslan sem var lögð fram var góður grunnur. Það er verið að vinna að heildarstefnumótun í ráðuneytinu og skýrslan nýtist í þá vinnu.

Ég heyri að hv. þingmenn þola ekki að heyra þann sannleika sem yfirlæknir vímuefnadeildar LSH hefur komið á framfæri. Hann er einn ábyggilegasti meðferðaraðilinn sem við eigum í þessari þjónustu á Íslandi, Bjarni Össurarson, fagaðili fram í fingurgóma. Hann hefur sagt að aðgengi og meðferð hér á landi sé góð, óvíða sé betra aðgengi að meðferð en hér. (Gripið fram í.) Það er gott úrval og framboð af vímuefnameðferð á Íslandi. Þannig er nú staðan.

Ég heyri líka að hv. þingmenn eru að tala um sameiningu ráðuneyta. Þótt ráðuneyti yrðu sameinuð, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið og félagsmálaráðuneytið — menn eru að skoða núna breytingar á Stjórnarráðinu, segjum að þetta yrði gert, þá tel ég að enginn muni, þrátt fyrir slíka aðgerð, breyta félagslegum búsetuúrræðum yfir í heilbrigðisstofnanir. Félagsleg búsetuúrræði henta ákveðnum hópi. Sumir sem eru í slíkum úrræðum þurfa læknisþjónustu, en viðkomandi búsetuúrræði breytist ekki í heilbrigðisstofnun fyrir vikið, það er ekki þannig.

Ég vil benda á að á Miklubraut 18 og 20 eru rekin félagsleg búsetuúrræði. Þar er fólk sem leitar sér læknisþjónustu en þetta eru ekki heilbrigðisstofnanir. Þetta eru heimili sem eru rekin á vegum borgarinnar og félagsmálayfirvalda. Þar eru líka aðilar sem eru það veikir að þeir hætta ekki að neyta áfengis og þeir eru ekki útilokaðir frá því að koma heim til sín þó að þeir séu undir áhrifum áfengis. Þetta eru ekki heilbrigðisstofnanir. (Gripið fram í.) Þetta eru félagsleg úrræði.

Þetta fólk er að leita sér þjónustu innan heilbrigðisþjónustunnar en ekki er þar með sagt að heimilið sé heilbrigðisstofnun. Þetta er fólk sem fær t.d. mikilvæga (Forseti hringir.) göngudeildarþjónustu. (Gripið fram í.)