133. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2007.

endurmat á stöðu mála í Írak.

[10:34]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Það eru ánægjulegar fregnir sem berast nú frá Írak. Svo virðist sem þær þjóðir sem ábyrgð hafa borið á öryggisástandinu í suðurhluta landsins, í kringum Basra, telji nú að öryggisástandið á þeim slóðum sé orðið þannig að óhætt sé að fækka eða afturkalla lið sín frá þessum svæðum. Bretar hafa ákveðið að fækka þarna um 1.600 hermenn, að manni skilst, verða þó áfram með 5.500 manna herafla, og Danir ætla í ágústmánuði að kalla heim sína hersveit upp á nokkur hundruð manns en þó munu þeir í staðinn senda 55 manna þyrlusveit og auka stuðning sinn við Írak með ýmsum öðrum hætti eins og kemur fram í yfirlýsingu danska forsætisráðherrans frá því í gær. Þeir munu t.d. fjölga ráðgjöfum í ráðuneytunum í Bagdad, auka stuðning sinn við írakska flóttamenn, bæði innan Íraks og í nálægum löndum, veita stuðning til að þjálfa írakska lögreglu o.s.frv.

Markmiðið með aðgerðum Dana, svo að ég haldi mig við þá, var að sjálfsögðu að stuðla að því að öryggisástandið í landinu yrði þannig að heimamenn gætu yfirtekið alla starfsemi, öryggisgæsluna, lögregluþjónustuna og annað í landinu. Í öðru lagi var markmið Dana að leggja sitt af mörkum til enduruppbyggingar í landinu.

Við Íslendingar lögðum fram, eins og menn muna, 300 millj. kr. til stuðnings við enduruppbyggingu í Írak. Sú ákvörðun var tekin af Alþingi. Er hv. þingmaður að ætlast til þess eða mælast til þess að sú ákvörðun verði afturkölluð? Hvað er þingmaðurinn að fara? Það er full ástæða til að fagna þeirri þróun sem orðið hefur og birtist núna í þessum ákvörðunum Breta og Dana sem eru teknar í fullu samráði við Bandaríkjamenn. Þær sýna að þrátt fyrir ástandið í Írak fer þar eitt og annað á betri veg.