133. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2007.

endurmat á stöðu mála í Írak.

[10:38]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er vert að rifja upp að því hefur verið lýst yfir af hálfu ríkisstjórnarinnar að stuðningur Íslands við innrásina hafi verið mistök vegna þess að menn höfðu rangar upplýsingar, forsendur sem ákvörðunin á sínum tíma byggðist á hefðu verið rangar. Við skulum rifja upp þessar helstu forsendur.

Þær voru í fyrsta lagi að stjórnvöld í Írak væru tengd við hryðjuverkasamtökin al Kaída því að engar trúverðugar upplýsingar lágu fyrir um það á þessum tíma til að styðja þær fullyrðingar. Þær hafa fyrir löngu síðan verið hraktar.

Í öðru lagi voru forsendur fyrir stuðningi við innrásina að þáverandi stjórnvöld í Írak réðu yfir gereyðingarvopnum. Engar trúverðugar upplýsingar lágu fyrir á þeim tíma fyrir sannleiksgildi þeirrar fullyrðingar og hún hefur fyrir löngu síðan verið hrakin fram og til baka, virðulegi forseti.

Í þriðja lagi er rétt að minna á að Íslendingar eru aðilar að Sameinuðu þjóðunum, hafa undirgengist stofnsáttmála þeirra og það lá fyrir þá, og liggur fyrir enn, að það er andstætt ákvæðum stofnsáttmálans að styðja þetta stríð. Menn vissu það, hæstv. ríkisstjórn vissi að hún var að ganga gegn eigin samþykkt sem hún hafði skuldbundið sig til að virða. Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra: Hvaða forsendur voru það sem lágu til grundvallar pólitískri stuðningsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem síðar hafa reynst rangar? Ég held að það sé nauðsynlegt að ríkisstjórnin upplýsi okkur um hvað það var sem hún lagði til grundvallar og leiddi til þessarar ákvörðunar.

Virðulegi forseti. Þetta er ein allra versta ákvörðun sem tekin hefur verið hér af ríkisstjórn vegna þess að hér á að ríkja (Forseti hringir.) þingbundin ríkisstjórn en þessi ákvörðun sýnir að svo er ekki.