133. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2007.

endurmat á stöðu mála í Írak.

[10:42]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég verð að segja að svör hæstv. forsætisráðherra og forherðing hans vekja undrun mína. Það er merkilegt að hæstv. forsætisráðherra skuli ekki a.m.k. geta rætt um þessi mál og tjáð sig um þau með einhverjum skilningi á því hvernig viðhorf eru að breytast. Það er furðulegt að heyra talað um ánægjulegar fréttir frá Írak.

Það er lapinn upp áróðurinn frá Tony Blair þegar hann hrökklast undan þinginu og almenningsálitinu í Bretlandi. Ég held að hæstv. forsætisráðherra væri nær að taka t.d. mark á leiðtoga Frjálslynda flokksins þar sem var andvígur stríðinu frá byrjun, Campbell, og hann sagði á breska þinginu í gær að hin óhugnanlega staðreynd væri að Bretar væru að hrökklast frá landi sem væri á barmi borgarastyrjaldar. Það er ekki þannig að menn séu að draga heri sína til baka, þeir sem þangað ösnuðust með þá, Danir og Bretar, vegna þess að ástandið sé að skána.

Það er að sjálfsögðu útúrsnúningur hjá hæstv. forsætisráðherra að tala um hvort við séum að fara fram á að þeir fjármunir sem væru til reiðu til uppbyggingar í Írak ef þar væri eitthvað hægt að byggja upp fyrir ástandinu væru kallaðir til baka. Að sjálfsögðu ekki. Það sem við viljum, frú forseti, er að smánarbletturinn verði þveginn af nafni Íslands sem á það féll þegar formenn stjórnarflokkanna, Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, misfóru með nafn og orðstír landsins og settu okkur á lista yfir hinar staðföstu þjóðir sem stóðu fyrir ólögmætu árásarstríði gegn Írak sem var brot á alþjóðalögum og einhver allra hraklegasti atburður sem gerst hefur í seinni áratuga stjórnmálasögu. Það er alveg til skammar finnst mér að hæstv. forsætisráðherra skuli ekki geta horfst í augu við veruleikann eins og hann er og endurmetið afstöðu sína og síns flokks. Hann væri maður að meiri (Forseti hringir.) ef hann gerði það.