133. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2007.

skýrsla Hagstofunnar um lágtekjumörk og tekjudreifingu 2003--2004.

[11:05]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Talsmenn ríkisstjórnarflokkanna óttast ekkert jafnmikið í aðdraganda kosninga og að kjósendur átti sig á því hvernig ríkisstjórnin hefur misskipt ávöxtum þess góðæris sem ríkt hefur á Íslandi milli einstakra tekjuhópa. Ríkisstjórnin virðist muna það nú í aðdraganda kosninga að atkvæði kjósenda eru jafnverðmæt burt séð frá því hvaða tekjuhópi kjósendur tilheyra og leggur mikið á sig til að reyna að slá ryki í augu kjósenda um að ójöfnuður hafi ekki aukist á Íslandi og að allir sitji við sama borð þegar við tölum um aukningu kaupmáttar og lífskjör almennings.

Þegar við berum saman þær tölur sem verið er að tala um í þessari nýju Evrópukönnun Hagstofunnar um lágtekjumörk og tekjugreiningu verðum við að hafa í huga það sem fram hefur komið, að einungis helmingur fjármagnstekna er tekinn inn í þann samanburð. Ef allar fjármagnstekjur væru teknar inn, bæði hér og í samanburðarlöndunum, ykist ójöfnuðurinn mikið á Íslandi vegna þess að það virðist vera meira um fjármagnstekjur á Íslandi og minna skattlagðar en í samanburðarlöndunum.

Þegar við tölum um aukningu kaupmáttar og betri lífskjör verðum við að líta á hvað liggur á bak við þau meðaltöl sem ríkisstjórnarflokkarnir flagga svo mjög. Meðaltölin segja ekki neitt um misskiptingu og ef við lítum á 12 ára tímabilið frá 1993–2005 hefur kaupmáttur 20% tekjulægstu heimilanna aukist um 31,5% á föstu verðlagi en hjá þeim sem 10% hæstu tekjurnar hafa er aukningin orðin 118%.

Meðaltalið segir ekki neitt. Að nota meðaltöl í þessu skyni væri svipað og að taka stjórnarflokkana báða, Framsókn og Sjálfstæðisflokk, þar sem annar er með lágt fylgi og hinn með hátt fylgi og reikna af því meðaltal, eins og að það segi okkur eitthvað um fylgi Framsóknarflokksins. Það segir okkur ekki neitt um fylgi Framsóknarflokksins og því ljúga þessi meðaltöl. Það er falsið sem ríkisstjórnin notar.