133. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2007.

skýrsla Hagstofunnar um lágtekjumörk og tekjudreifingu 2003--2004.

[11:07]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Enginn vafi leikur á því að misskipting og misrétti hefur aukist í íslensku samfélagi á undanförnum árum. Misréttið birtist í ýmsum myndum. Það birtist í þeirri mynd að tekjulítið fólk á ekki lengur kost á því að festa kaup á húsnæði. Misréttið birtist í þeirri mynd að tekjulítið fólk á erfitt með að leita sér lækninga vegna tilkostnaðar. Misréttið birtist í þeirri mynd að tekjulitlir foreldrar geta ekki gefið börnum sínum kost á að stunda frístundastarf á borð við önnur börn sem koma frá fjölskyldum sem hafa rýmri fjárráð.

Efst í pýramídanum tróna þeir sem hafa tekjur sínar af fjármagni og það eru miklar tekjur. Það er þetta fólk sem ríkisstjórn Íslands hefur sýnt mesta umhyggju. Hún hefur lagt þetta fólk í bómull. Þetta fólk er skattlagt upp á 10% en launamaðurinn upp á 35 eða 36%. Í þessu birtist okkur pólitískt misrétti. Neðst eru hinir tekjulágu, þeir sem hafa 114 þús. kr. í tekjur. Hverjir eru það? Það er atvinnulaust fólk. Atvinnuleysi er lítið á Íslandi núna, 1,3%, en á bak við þá tölu eru 2 þús. einstaklingar. Þeim eru búin þessi kjör. Síðan er það láglaunafólkið sem er með um 120 þús. kr. í tekjur.

Þriðjungur lífeyrisþega er með undir 130 þús. kr. áður en þeir greiða skatta. Þetta er sú staðreynd sem blasir við í íslensku þjóðfélagi, (Forseti hringir.) misrétti á misrétti ofan. Í vor, hinn 12. maí, (Forseti hringir.) gefst íslensku þjóðinni kostur á (Forseti hringir.) að hverfa inn á nýjar uppbyggilegri brautir.