133. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2007.

skýrsla Hagstofunnar um lágtekjumörk og tekjudreifingu 2003--2004.

[11:10]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni fyrir að vekja aftur máls á þeim rannsóknum sem ég talaði um í umræðum utan dagskrár í gær. Hefði verið betra að hv. þingmaður hefði verið viðstaddur þá umræðu.

Í umræðunum í gær vísaði ég bæði til rannsóknar Ragnars Árnasonar, prófessors við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, (Gripið fram í.) og sömuleiðis niðurstaðna lífskjararannsókna Hagstofu Íslands sem hv. þingmaður hefur gert að umræðuefni að þessu sinni. Sú lífskjararannsókn Hagstofu Íslands snýr að lágtekjumörkum og tekjudreifingu á árunum 2003 og 2004 og hún staðfestir niðurstöður Ragnars Árnasonar. Það er rétt að ítreka að þetta er hluti af samræmdri lífskjararannsókn Evrópusambandsins. Þess vegna þýðir ekki að gera eins og hv. þingmaður vildi meina áðan, að nota önnur viðmið á Íslandi en annars staðar í Evrópu. (Gripið fram í.) Auðvitað verður að nota sömu viðmið. (Gripið fram í.) Niðurstaðan er sú, hæstv. forseti, að af 31 Evrópuþjóð árið 2004 var ein þjóð með lægra lágtekjuhlutfall en Íslendingar. Tvær voru með sama hlutfall og 27 þjóðir með hærra lágtekjuhlutfall.

Eins og fram kom hjá hæstv. forsætisráðherra voru þrjár Evrópuþjóðir með lægri Gini-stuðul sem fáir þekkja betur en hv. þm. Sigurjón Þórðarson, en 27 þjóðir í Evrópu voru með hærri Gini-stuðul en Íslendingar. Síðan tala menn um fjármagnstekjur og vilja miða við árið 1993. Hvað hefur gerst frá árinu 1993? Hefur ekki byggst upp hlutabréfamarkaður og fjármagnsmarkaður af þvílíkum myndarskap (Gripið fram í.) að annað eins þekkist ekki og það er allur almenningur sem tekur þátt í því að eyða sparifé sínu í hlutabréf? (JGunn: Hvaða sparifé?) Það er sama hvernig hv. þm. Jón Gunnarsson reynir að snúa út úr því. Það er auðvitað það sem skiptir máli, að hlutabréfamarkaðurinn á Íslandi er orðinn stærri atvinnugrein (Forseti hringir.) en sjávarútvegurinn.