133. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2007.

skýrsla Hagstofunnar um lágtekjumörk og tekjudreifingu 2003--2004.

[11:24]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil eindregið taka undir það með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að mönnum ber að sýna hófstillingu og virðingu í þingsal Alþingis. Ég vona að hann taki það sjálfur til eftirbreytni framvegis.

En málið er varðandi þá skýrslu sem við erum að ræða, að það hafa ekki allir farið með rétt mál um efni hennar. Það virðist vera eins og sumt fólk í þessum sal hafi einfaldlega ekki kynnt sér hana. Því er haldið fram að fjármagnstekjur séu ekki teknar með í þennan útreikning, því er haldið fram fullum fetum. Það er rangt. Ég sagði það sérstaklega og greindi frá því áðan. Það eru allar fjármagnstekjur hafðar með, nema söluhagnaður af hlutabréfum. Af hverju eru þær tekjur ekki með? Það er vegna þess að þetta er gert eftir alþjóðastöðlum (Gripið fram í.) og þannig er þetta gert alls staðar annars staðar.

Ég útskýrði það líka hver munurinn væri á þessari skýrslu og því svari sem fjármálaráðuneytið sendi frá sér áður þar sem allar fjármagnstekjur voru hafðar með. Af hverju þurfa menn að vera að togast á um staðreyndirnar í málinu? Er ekki í lagi að leggja þær niður fyrir sér og ræða síðan málið á slíkum grundvelli? Því þurfa menn að vera að hártoga þetta í bak og fyrir?

Sem betur fer sýnir þessi skýrsla að við Íslendingar stöndum betur að vígi hvað varðar tekjujöfnun og jöfnuð í þjóðfélaginu en haldið hefur verið fram og við stöndum mun betur að vígi en flestöll þau lönd í Evrópu sem við kærum okkur um að bera okkur saman við, öll nema þau lönd sem ég gat um áðan miðað við þessa mismunandi mælikvarða, Svíþjóð, Danmörk og Slóvenía. Er það ekki góður árangur? Ég tel að svo sé.

En ég vil ekki gera lítið úr því vandamáli sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gat um. Því miður eru tekjuhópar í þjóðfélaginu sem ekki hafa það nægilega gott. Verkefnið er að koma þeim til aðstoðar og gera þeim lífið betra en verið hefur. Samt hefur fækkað í þeim hópi, samt hafa þeir hópar það hlutfallslega betra núna en áður og samt hafa slíkir hópar það miklu betra en í öðrum löndum ef þeir væru á sams konar stigi í tekjudreifingunni þar. Það er kjarni málsins.