133. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2007.

Norræna ráðherranefndin 2006.

569. mál
[12:15]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Mér finnst við hæfi að segja hér nokkur orð um norrænt samstarf. Ég fagna því og tel það að mörgu leyti eðlilegt að þetta sé rætt í því samhengi sem hér er gert, þannig að manni leyfist þá og gefist kostur á að tjá sig um alla anga þess, þ.e. bæði ráðherraráðshliðina, starfsemi Norðurlandaráðs, Vestnorrænt samstarf o.fl. en allt tengist þetta á ýmsan hátt eins og kunnugt er. Ég hef sýslað við þetta um hríð, hef setið í Norðurlandaráði í bráðum tólf ár og lengst af mínum stjórnmálaferli verið í einhverjum verkefnum á sviði vestnorræns eða norræns samstarfs og það er orðið mér ákaflega tamt að líta á það sem inngróinn hluta af mínu pólitíska starfi að sinna því. Þó að vissulega taki það sinn tíma og kosti ferðalög þá held ég þegar upp er staðið að menn eigi ekki að þurfa að sjá eftir því að leggja þessu samstarfi krafta sína því að án efa gefur það og veitir miklu meira en það tekur frá manni.

Ég vil í fyrsta lagi fagna því að norrænt samstarf er að mörgu leyti komið á beinni braut að mínu mati nú en það hefur kannski verið um tíu ára skeið. Það fór ekkert hjá því að ýmsar hræringar sem urðu í heimsmálum, og ekki síst í okkar heimshluta á tíunda áratug síðustu aldar, settu sitt mark á norrænt samstarf og um tíma voru býsna miklar efasemdir um að það kæmi til með að eiga sér framtíð nema þá í einhverju gjörbreyttu og skertu formi frá því sem verið hafði. Menn fóru í skipulagsbreytingar og ýmsar æfingar sem áttu sér stað á árunum sem sigldu í kjölfarið leiddu til breytinga á starfsskipulagi Norðurlandaráðs 1995 sem síðan hafa að mestu leyti gengið til baka. Þegar upp er staðið held ég að segja megi að norrænt samstarf sé að flestu leyti á beinni braut og að efasemdarröddum um framtíðarréttmæti þess og gagnsemi hafi á nýjan leik farið mjög fækkandi. Það passar reyndar ágætlega við kenningar sem ýmsir hafa sett fram um að á tímum aukins alþjóðasamstarfs og hnattvæðingar og stærri samstarfseininga eins og t.d. á meginlandi Evrópu vaxi á nýjan leik þörfin fyrir svæðisbundið samstarf og menn leiti jafnvel róta sinna og vinni að því að þétta samstarf við næstu nágranna sína einmitt til að standa fastari fótum úti í hinum stóra heimi og tilheyra einhverri nærfjölskyldu. Það má að mörgu leyti segja að þetta heppnist ágætlega í norrænu samstarfi þrátt fyrir ólík tengsl landanna við Evrópusambandið, mismunandi öryggistengsl þeirra og þar fram eftir götunum.

Það sem mig langar að nefna í fyrsta lagi af efnisþáttum málsins og vinnunnar á undanförnum missirum er skýrsla um Norðurlönd sem sigursvæði á heimsvísu eins og það er nú kallað og er þýðing úr skandinavískunni „Norden som global vinderregion“. Það má deila um ágæti þessa hugtaks, að menn séu endilega að merkja sig einhverjum stórum sigrum, því að það vísar þá til þess að aðrir séu að tapa, enda ekki hugsunin. Hitt er ljóst að það hefur sýnt sig í margs konar alþjóðlegum samanburði og kortlagningu að Norðurlöndin standa ótrúlega sterkt að vígi, sumir mundu segja þrátt fyrir öflug velferðarkerfi sín og hátt skatthlutfall, en skýrslurnar leiða í raun og veru fram hið gagnstæða, að Norðurlöndin standa sterkt að vígi einmitt vegna þess að þau eru öflug velferðarsamfélög, þau eru með öflug opinber mennta- og heilbrigðiskerfi, þau búa íbúum sínum afkomuöryggi og tryggt umhverfi sem er eftirsótt í heimi nútímans þegar margt er á hverfanda hveli. Það er helsti styrkur Norðurlandanna, t.d. í samkeppni um vinnuafl og staðsetningu fyrirtækja á tímum þegar úthýsing er mjög í tísku, og þess gætir jafnvel að fyrirtæki sem flutt voru frá Norðurlöndunum til að sækja í lægri vinnulaun eða aðra slíka hluti í fjarlægum löndum séu farin að snúa heim á nýjan leik í þetta sama trygga, góða umhverfi sem velferðarsamfélög Norðurlandanna bjóða upp á.

Það hefur verið mikilvægur hluti vinnunnar á vettvangi Norðurlandaráðs og í þeirri nefnd sem ég hef setið í að undanförnu, efnahagsnefnd, að fylgja eftir þessari vinnu um „Norðurlönd sem sigursvæði“ og verður áfram. Það góða við þá vinnu er að mínu mati að hún lyftir fram, dregur fram í dagsljósið styrkleika Norðurlandanna, þeirrar samfélagsgerðar sem þar er, og um leið er hún auðvitað hvatning til norræns samstarfs því að það er ljóst að saman standa Norðurlöndin miklu sterkar að vígi til að gæta séreinkenna sinna og standa vörð um gildi sín og samfélagsgerð í hnattvæddum heimi.

Í öðru lagi langar mig að nefna umsókn Færeyinga um sjálfstæða og fullgilda aðild að Norðurlandaráði. Umsókn þeirra hefur leitt til þess að staða sjálfstjórnarsvæðanna þriggja, Færeyja, Grænlands og Álandseyja, hefur verið talsvert á dagskrá. Því máli hefur því miður miðað hægar en skyldi, í reynd hefði ekkert átt að vera því til fyrirstöðu að Færeyingar, og eftir atvikum síðan Grænlendingar og Álandseyingar eftir því sem þeir þá óskuðu, öðluðust þegar í stað fullgilda aðild að Norðurlandaráði og eftir atvikum sjálfstæða og fullgilda aðild að norræna ráðherraráðinu eftir því sem þeir hafa yfirtekið að fullu stjórn og umsjón mála í sínar hendur. Það er að vísu ljóst að aðild að ráðherraráðinu er flóknari að þessu leyti, í þeim tilvikum að viss sameiginleg málefni danska ríkisins gera það að verkum að aðild Færeyinga og í enn ríkari mæli Grænlendinga getur ekki orðið með alveg sama hætti að öllu leyti að ráðherrasamstarfinu, en fullgild aðild að Norðurlandaráði sjálfu er í raun ekkert vandamál og eingöngu spurning um pólitískan vilja. Það eru engar lagalegar hindranir í vegi þar og þó svo væri ætti það ekki að vefjast fyrir mönnum að gera nauðsynlegar breytingar á Helsinki-sáttmálanum þannig að Færeyingar fengju þessa ósk sína uppfyllta. Ég vek athygli á því að hér er aldrei þessu vant, liggur við að verði að segja, um sameiginlega ósk færeyska þingsins að ræða þar sem allir Færeyingar standa saman um þennan áfanga í átt til aukins sjálfstæðis Færeyja á alþjóðavettvangi, því að það er það auðvitað, og hluti af sókn þeirra til aukins og vonandi bráðum fulls sjálfstæðis. Mér finnst tæpast þurfa að ræða það hversu sjálfgefið er að við Íslendingar styðjum frændur okkar og vini, Færeyinga, í þessu tilviki. Það væri undarlegt ef svo væri ekki, ef eitthvað annað væri upp á teningnum í ljósi okkar eigin sögu og í ljósi þess að við viljum gjarnan leggja þessum næstu nágrönnum okkar og frændum lið og beita okkur í tilvikum sem þessum þegar þeir hafa sameinast um tilteknar óskir.

Ég vil svo líka nefna örlítið hvers eðlis Norðurlandaráð er og nefna það sem kannski of sjaldan er haft með í umræðunni að hið norræna samstarf er um margt einstakt á sviði alþjóðasamvinnu. Það er oft nefnt sem dæmi um mikinn árangur, glæsilegan árangur í frjálsu samstarfi ríkjahóps án þess að byggðar hafi verið upp yfirþjóðlegar stofnanir eða án þess að valdi hafi verið afsalað frá stofnunum, þjóðþingum og ríkisstjórnum viðkomandi ríkja. Það er í raun sönnun þess að hægt er að ná miklum árangri með slíkri frjálsri stjórnmálalegri og lýðræðislegri alþjóðasamvinnu án þess að um miðstýrt ákvörðunarvald eða valdaframsal frá einstökum þátttakendum sé að ræða.

Norðurlandaráð er að þessu leyti um margt einstakur vettvangur. Það eru t.d. fá dæmi ef nokkur í heiminum um að þingmenn og ráðherrar mismunandi þjóðríkja geti á einum vettvangi átt orðaskipti og spurt hverjir aðra. Þannig geta þingmenn hvaða lands sem er innan norræna samstarfsins lagt spurningar fyrir ráðherra þótt frá öðrum löndum séu og það var reyndar bætt við þeirri nýbreytni á Norðurlandaráðsþingi síðastliðið haust að búinn var til í rauninni sérstakur norrænn leiðtogafundur þar sem ráðherrar og forustumenn ríkisstjórna og forustumenn stjórnarandstöðu komu saman og ræddu um stöðu Norðurlandanna og menn gátu skipst á skoðunum, gert athugasemdir við ræður þvert á landamæri og þvert á víglínur stjórnar og stjórnarandstöðu í þessum tilvikum.

Ég segi fyrir mitt leyti að ég hafði gaman af því að geta átt orðastað við frú Siv Jensen, formann norska Framfaraflokksins, sem hefur gjörólík viðhorf til velferðarkerfisins og áhrifa þess í samfélaginu frá þeim sem ég hef, og það er dæmi um hvernig menn að þessu leyti geta rætt málin á hinum norræna vettvangi, skipst á skoðunum og eftir atvikum haft viss áhrif þó að það sé eingöngu í formi skoðanaskipta. Ég leyfi mér að nefna annað dæmi og það er það deilumál sem uppi var í færeyskum stjórnmálum og varðaði stöðu samkynhneigðra þar í landi. Ég er ekki í nokkrum minnsta vafa um að það átti sinn þátt í því að Færeyingar tóku af skarið og samþykktu réttarbót samkynhneigðum til handa á lögþingi sínu fljótlega eftir heimkomuna frá Norðurlandaráðsþingi þar sem þessi mál bar mjög á góma og verulegur þrýstingur, auðvitað vel meintur og jákvæður, kom á færeysk stjórnvöld að taka sér tak í málinu frá bræðraþjóðum þeirra á hinum Norðurlöndunum. Það snýst að sjálfsögðu ekki um það að ein þjóð segi öðrum fyrir verkum heldur að menn skiptist á skoðunum og rökræði um hlutina og ég efast ekkert um að Færeyingar fundu fyrir þeim þrýstingi sem þarna var á ferðinni úr hinni norrænu fjölskyldu í þessu tilviki. Þetta er gott dæmi um það hversu einstakt og í raun merkilegt þetta samstarf er að einmitt svoleiðis hlutir geti farið þarna fram.

Ég held að það sé enginn minnsti vafi á því að fyrir Ísland, og kannski má segja sérstaklega að ýmsu leyti fyrir Ísland og Noreg, er hið norræna samstarf ákaflega mikilvægt. Það er náttúrlega ákveðin brú yfir í Evrópusamstarfið gegnum samskipti við hinar Norðurlandaþjóðirnar þrjár sem eru aðilar að Evrópusambandinu. Sömuleiðis er það ákaflega mikilvægur aðgangur fyrir sjálfstjórnarsvæðin að alþjóðasamvinnu af þessum toga og það er að mínu mati góður áfangi á leið þeirra til meira sjálfstæðis og sjálfstæðari þátttöku í alþjóðasamstarfi að öðlast eftir því sem þau óska fullgilda aðild að Norðurlandaráði.

Í tengslum við þetta mætti nefna þann gleðilega atburð að samskipti Íslands og Færeyja hafa á allra síðustu árum þroskast enn og nú er komið á fríverslunarsvæði með Hoyvíkur-samningnum, sem reyndar var til umræðu fyrir skömmu hér á þinginu, og sömuleiðis sú ákvörðun landanna að opna aðalræðismannsskrifstofur í hvoru landi um sig, íslenska aðalræðismannsskrifstofu í Færeyjum væntanlega í aprílmánuði nk. og færeysk skrifstofa lítur væntanlega dagsins ljós á Íslandi skömmu síðar. Allt eru þetta jákvæðir og gleðilegir atburðir að mínu mati af vettvangi hins norræna samstarfs og engin ástæða til annars en að horfa björtum augum til framtíðar hvað það snertir.