133. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2007.

Norræna ráðherranefndin 2006.

569. mál
[12:36]
Hlusta

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að grípa boltann á lofti þar sem síðasti ræðumaður hv. þm. Drífa Hjartardóttir endaði og tala um þýðingu þessa alþjóðasamstarfs og ég tek undir með henni. Ég hef átt þess kost að starfa á menningarsviði Norðurlandasamstarfsins sem formaður menningarmálanefndar og eins sem fulltrúi í stjórn Norræna menningarsjóðsins. Ég hef verið í þessu samstarfi meira eða minna síðan árið 1991 og hin síðari ár þátttakandi í forsætisnefnd og þar með í alþjóðlegum samskiptum.

Mér finnst það skipta mjög miklu máli að hrakspárnar sem voru uppi um þróun samstarfsins á þeim árum þegar Svíþjóð og Finnland voru að undirbúa inngöngu sína í Evrópusambandið, gengu ekki eftir.

Menn óttuðust að þetta samstarf væri víkjandi, að það yrði víkjandi þegar svo mörg Norðurlandanna yrðu orðin þátttakendur í evrópsku samstarfi. Þau voru það fyrir í gegnum Evrópska efnahagssvæðið en nú voru þrjú þeirra orðin þátttakendur í Evrópusambandinu og að sjálfsögðu mikill áhugi á að beina sjónum inn í það samstarf.

Hins vegar hefur það gerst sem mörg okkar vonuðu, að norræna samstarfið varð mjög mikilvægur samráðsvettvangur fyrir löndin sem voru innan EES en utan Evrópusambandsins. Það eru Ísland og Noregur. Og ég hika ekki við að halda því fram að þetta sé þýðingarmesta alþjóðasamstarfið sem Ísland tekur þátt í.

Það er oft talað um það og oft er skrifað um að norræna samstarfið sé ekki nógu árangursríkt, það sé ekkert að gerast og menn eru þá að bera sig saman við þegar stóru samþykktirnar voru gerðar, þ.e. um velferðarsáttmálann, um vegabréfasáttmálann, sameiginlegan vinnumarkað o.s.frv. En vissulega hefur verið tekið á á öllum sviðum samfélagsins í gegnum þetta samstarf.

Það er líka oft talað um að þetta samstarf sé dýrt. Ísland greiðir 1,1% af kostnaði við samstarfið. En á vegum norræna samstarfsins eru mjög margar merkilegar stofnanir starfræktar. Sú stærsta og umfangsmesta er eflaust Norræni fjárfestingarbankinn sem hefur aðsetur í Helsingfors og það er hægt að undirstrika og segja frá því að árangur eða afrakstur þess banka er svo mikill að hann er miklu meiri en kostnaðurinn við allt norræna samstarfið eins og það leggur sig, bæði á ráðherravæng og á vegum ráðsins. Það er gott fyrir menn að hafa það til hliðsjónar þegar rætt er um þetta samstarf hve þýðingarmikil sú stofnun er innan norræna samstarfsins og hefur skilað miklum afrakstri eða gróða.

Við verðum samt að horfast í augu við að það er mikil áhersla á að draga úr almennum útgjöldum. Það er alltaf verið að yfirfara þetta samstarf. Það er alltaf verið að endurskoða hvort hlutirnir megi betur fara og það hefur gerst að það er búið að draga úr stofnanavæðingu, það er búið að leggja niður stofnanir eins og t.d. á menningarsviðinu. Þar voru lagðar niður allmargar stofnanir sem voru gildandi fyrir þróun mála og stofnanir þar sem fjármagni var veitt til verkefna.

Það er mjög áhugavert að fylgjast með því hvernig þessi mál munu þróast. Það er búið að setja mjög margar menntastofnanir undir stofnun sem hefur verið sett á laggirnar í Finnlandi og verður til húsa í Sveaborg og mun heita Kulturkontakt Nord. Þarna er hugsuð sú samræming sem áður var í mörgum nefndum og stofnunum.

Það er mjög horft til Norðurlandanna frá öðrum löndum í Evrópu og frá löndum sem fjær standa vegna þeirrar sterku lýðræðishefðar sem ríkir á Norðurlöndunum, vegna jafnréttis- og jafnaðarsjónarmiða sem eru samofin í samfélögum og samfélagsuppbyggingu Norðurlandanna og það er horft til þess með aðdáun hvernig í þessum samfélögum Norðurlandanna hefur tekist að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf með tilteknum hætti sem ekki þekkist í neinu öðru landi eða á neinum öðrum svæðum fjær okkur.

Á Norðurlöndunum eru flestar konur á barneignaraldri á vinnumarkaði, þ.e. 85–90% kvenna, og þær fæða af sér flest börn. Þetta er samhengi sem þykir mjög ótrúlegt hvort sem maður lendir í því að ræða þessi mál í Þýskalandi eða Japan, en hvoru tveggja hef ég lent í og vekur furðu og aðdáun og hvernig til hafi tekist.

Okkur ber auðvitað í hverju landi fyrir sig að vinna stöðugt að því að gera þessi samfélög betri og það er munur á löndunum. Það er munur á samfélagsuppbyggingu þótt öll aðhyllist þau sömu grunngildi.

Það má segja að í hnotskurn séu stóru málin í norrænu samfélögunum jafnframt stóru málin í þingmannasamstarfinu á hverjum tíma. Ef við lítum á t.d. þær þemaráðstefnur sem hafa verið haldnar síðustu ár þá höfum við á Norðurlandavettvangi verið að taka fyrir vændi og mansal. Við höfum verið að taka fyrir loftslagsbreytingarnar, öryggi borgaranna og að afnema landamærahindranir og nú síðast sambúð menningarheima, en þetta eru málefni sem íbúarnir, m.a. íbúar hér á Íslandi setja á oddinn þegar gerð er könnun á því hvað fólk líti á sem þýðingarmestu verkefni samtímans. Eins og félagar mínir hafa komið inn á eru Norðurlönd sem sigursvæði mjög sérstakt. Það er eitt af því sem við höfum verið að vinna með síðan í fyrra.

Það sem er merkilegt við að Norðurlöndin standi sig svo vel í alþjóðlegum samanburði er að í raunveruleikanum ættu lönd með háa skattheimtu, stóran opinberan geira, hátt þjónustustig og almennt góð lífskjör og mikil gæði, lönd þar sem eru settir miklir fjármunir til slíkra þátta, þau ættu að hafa slakari samkeppnisgetu í samkeppni þjóðanna, þau væru fyrir fram álitin standa sig verr eða hafa slakari samkeppnisgetu.

Það hefur hins vegar sýnt sig í öllum rannsóknum sem á þessu hafa verið gerðar og í öllum samanburði sem við höfum kynnt okkur og sífellt er verið að setja fram á alþjóðavísu, að Norðurlöndin toppa alla röðun í öllum skýrslum um samkeppnishæfni á alþjóðavísu. Þetta er mjög merkilegt fyrir þær sakir sem ég hef hér rakið.

Landamærahindranir, það að reyna að koma í veg fyrir að einhver vandamál komi upp þegar fólk flytur á milli landa, eða sest að í einum af hinum Norðurlöndunum, er verkefni sem Norðurlönd hafa ákveðið að verði stöðugt í gangi. Fyrrverandi forsætisráðherra Dana, Poul Schlüter, tók að sér þetta verkefni og skilaði skýrslum sem voru mjög góðar og voru okkur til mikils gagns í að vinda ofan af þeim vandamálum sem höfðu verið að myndast og það er mjög mikils virði þegar við fáum starfsmann af þessu tagi inn í verkefnin. Síminn, Halló Norðurlönd, er líka tæki sem er notað í Norðurlandasamstarfinu til að kortleggja þau vandamál sem upp koma.

Þetta er mjög mikilvægt og nú er Norðurlandaráð að skoða hvort ef til vill eigi að setja upp embætti umboðsmanns Norðurlanda, hvort sem það verður nú látið heita það, en verkefnið verði að hafa stöðugt í gangi þessa skoðun sem Poul Schlüter byrjaði á og vinna úr málunum jafnóðum. Þetta er eitt af mikilvægustu málum í norrænu samstarfi vegna þess að markmiðið er að fólk hreyfi sig innan Norðurlandanna, hafi búsetumöguleika og lífsskilyrði alveg eins og það væri heima, með þau réttindi sem eru í hverju landi fyrir sig.

Hér hefur verið getið um það starf sem hefur verið í gangi á Norðurlöndunum með ólíka menningarheima og mér finnst að við eigum að vera stolt af því að hafa tekið til hendinni þar og tekið höndum saman við frjáls samtök sem hafa unnið með þau mál og það var mjög merkilegt þegar prins Hassan frá Jórdaníu tók við keflinu á þingi Norðurlandaráðs, nokkurs konar boðkefli sem á að ganga á milli ólíkra menningarheima, og flutti með sér heim á sitt svæði markmið um að taka upp umræðu í sínum menningarheimi um hvernig við getum gert betur.

Ég get ekki lokið við umfjöllun um norræna samstarfið öðruvísi en að nefna norðurskautssamstarfið. Við hv. þm. Jón Kristjánsson, sem bæði áttum sæti í forsætisnefnd Norðurlandaráðs síðastliðið haust, höfum borið fram nokkrar spurningar til utanríkisráðherra um málefni svæðisins og ég hvet þingmenn til að skoða svörin við þeim. Við höfum spurt hvaða aðgerðum ríkisstjórnin hafi beitt sér fyrir varðandi stefnumálið um loftslagsbreytingar sem var kynnt í Reykjavík árið 2004 og við höfum spurt um ýmislegt varðandi mengunaráhrif og mat á siglingum á norðurheimskautssvæðinu og framlag Íslands til alþjóðaheimskautaársins og fleiri spurninga sem eru mikilvægar fyrir þróun mála á þessu svæði.

Það er mín skoðun, virðulegi forseti, að þetta samstarf eigi eftir að verða afar mikilvægt á komandi árum. Miðjan í norðurskautssamstarfinu sem nær frá Alaska og Kanada og yfir til Rússlands eru Norðurlöndin. Það kom fram í skýrslunni sem ég nefndi, loftslagsskýrslunni sem er kölluð ACIA-skýrslan, að hlýnunin á norðurslóð er að minnsta kosti tvisvar og hálfu sinni hraðari en annars staðar í heiminum. Vísindamenn um allan heim hafa verið að rannsaka loftslagsbreytingar en þarna kom alveg nýr vinkill inn í þá umræðu þegar allt að 400 vísindamenn með bandaríska vísindamenn í fararbroddi rannsökuðu ástandið hér í hánorðri og komust að þeirri niðurstöðu að hraði hlýnunar var miklu meiri hér en annars staðar. Þetta hefur opnað augu annarra vísindamanna og komið af stað samstarfi við þá.

Það verður líka mjög mikil þátttaka af Íslands hálfu og Norðurlandanna í fjölmörgum verkefnum á svokölluðu heimskautaári sem verður á árinu 2007 og yfir á árið 2008. Heimskautaár hefur verið tvisvar áður, síðast 1959 ef ég man rétt. Og í fyrsta sinn enn fyrr á öldinni þannig að þetta var tímabært.

Við horfum auðvitað mest á ástandið hér heima hjá okkur. Afleiðingar af hlýnuninni eru mjög miklar, ekki síst fyrir frumbyggja þar sem búsetuskilyrði versna og dýralíf flytur sig um set. Þetta á við um þiðnun íss og þetta á við um þiðnun frerans. Þetta varðar það að enginn veit hvaða gastegundir eiga eftir að leysast úr læðingi þegar frerinn þiðnar. Þetta á við um siglingaleiðina á sumrin yfir norðurskautið og vinnslu gass og olíu inni á þessum viðkvæmu svæðum sem þegar er farið að huga að. Þetta eru stór umhverfismál og þetta varðar jafnframt öryggismál.

Það er mjög mikilvægt að Norðurlöndin verði í fararbroddi og á næstu þremur árum verða þrjú Norðurlandanna með formennsku í norðurskautssamstarfinu, árið 2007–2008 er það Noregur og síðan taka Svíþjóð og Finnland við. Þessi lönd hafa þegar ákveðið að þau muni vinna eins og ein heild, vinna í samfellu að þessum þýðingarmiklu málum. Það hefur verið sett upp sérstök skrifstofa í Tromsö sem á fyrst og fremst að vera starfrækt til halda utan um þessi stóru mál sem ég hef nefnt og þróun þeirra og þátttöku Norðurlandanna í þeim. Það er búist við því að sú skrifstofa verði starfrækt áfram af hinum Norðurlöndunum.

Það má segja að þarna endurspeglist enn á ný inntakið í samvinnu Norðurlandanna, að þau fari saman í verkefnið, þau eru að gera sömu hlutina, þau eru að vinna eins og ein fjölskylda af því þau eru ein fjölskylda.