133. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2007.

Norræna ráðherranefndin 2006.

569. mál
[12:51]
Hlusta

Jón Kristjánsson (F):

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð inn í umræðuna til þess m.a. að kvitta fyrir þátttöku mína í sendinefnd Norðurlandaráðs. Sú þátttaka hefur ekki staðið lengi að þessu sinni en ég hef átt þess kost að kynnast þá fleiri þáttum starfseminnar og kynnast samstarfinu á ráðherravettvanginum. Hvort tveggja er afar mikilvægt, afar fróðlegt og ég tek undir það sem félagar mínir í sendinefndinni hafa sagt, að norrænt samstarf er á beinni braut, að mér finnst, mér finnst umræðan vera þannig núna.

Ég endurtek það sem ég sagði í umræðunni um utanríkismál. Ég var í Norðurlandaráði í upphafi síðasta áratugar síðustu aldar, svo maður orði það þannig, og þá var stanslaus umræða um hvort þetta ráð og slíkt samstarf ætti nokkra framtíð fyrir sér. Ég held að menn velkist ekkert í vafa um það núna að samstarfið á framtíð fyrir sér. Það er til komið vegna þess að við höfum sameiginlegan grunn, sameiginlegan menningararf, grasrótarsamskipti og við ætlum okkur að halda þeirri stöðu sem við höfum í umhverfinu sem velferðarþjóðfélög og ein af bestu velferðarþjóðfélögum í veröldinni. Það er það mikilvæga markmið sem norræna samstarfið hefur. Það er gríðarlega umfangsmikið, það þekki ég, bæði af starfinu í Norðurlandaráði. Þar að auki er Vestnorræna ráðið og heimskautaráðið og síðan samstarfið á ráðherravettvanginum. Þetta spannar gríðarlega mikið svið.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir hefur gert grein fyrir setu okkar í forsætisnefnd Norðurlandaráðs. Ég sit ekki þar lengur heldur hef ég tekið að mér formennsku í velferðarnefnd Norðurlandaráðs og þar eru mikilvæg verkefni sem verið er að vinna að í þeirri nefnd. Þau eru mjög ólík, eins og fósturskimun á meðgöngutíma, genarannsóknir, tollar á áfengi, landamærahindranir og skatta- og lífeyrismál. Þetta eru allt saman gríðarlega mikilvæg málefni og það er auðvitað tímanna tákn að landamærahindranir og að sporna við þeim eru vaxandi þáttur í starfsemi Norðurlandaráðs. Það er einfaldlega til komið vegna þess að í vöxt færist að fólk vinnur í öðru landi en það býr í, það er svo einfalt mál. Bættar samgöngur og bætt samskipti hafa orðið til þess að þetta er auðvelt. Ekki þarf annað en að nefna Eyrarsundsbrúna í þessu sambandi en mjög mikið er um að Danir flytji yfir til Svíþjóðar og vinni í Danmörku áfram. Þetta er kannski ekki mál sem er mjög aktúelt fyrir okkur, staðsetning okkar er þannig að við sækjum ekki daglega vinnu til annarra landa en þó er þetta í útrás okkar ekki óalgengt, að þeir sem eru heimilisfastir hér vinna meira og minna erlendis. Þetta er dæmi um að Norðurlandaráð er að takast á við verkefni dagsins.

Ef ég minnist aðeins á hvað fram undan er í Norðurlandaráði þá eru það risavaxin verkefni. Arktíska ráðið hefur reyndar verið með heimskautamálin á sinni könnu en þau mál koma óhjákvæmilega inn á vettvang Norðurlandaráðs. Það eru gríðarlega umfangsmikil verkefni fram undan á rannsóknarsviðinu eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir nefndi á undan mér. Þar á hlutur okkar Íslendinga vissulega að vera stór. Þetta er óskaplega mikilvægt mál fyrir okkur að fylgjast vel með og taka þátt í og rannsaka þær breytingar sem verða vegna hlýnunar á norðurslóðum.

Við erum í samstarfi við baltísku löndin. Ég sat í desember fund baltíska ráðsins í Vilníus. Þar eru risavaxin verkefni og ég vil nefna m.a. verkefni á heilbrigðissviðinu sem blasa við hjá þeim þjóðum, að berjast á móti berklum, þeim vágesti, svo maður nefni eitthvað. Þar ber okkur á Norðurlöndunum að veita okkar fulltingi.

Stórt mál sem hefur verið til umræðu og verður til umræðu er aðild sjálfstjórnarsvæðanna og m.a. hinar miklu áherslur Færeyinga að fá fulla aðild. Ég tel hiklaust að við eigum að hjálpa þeim til að svo geti orðið en vissulega þurfum við að gera það í samkomulagi og sem mestum friði og ég á von á að það takist, en skyldur okkar við Færeyinga, nágranna okkar og vini eru miklar í þessu sambandi.

Ég sagði að ég ætlaði ekki að halda langa ræðu. Dvöl mín í Norðurlandaráði að þessu sinni hefur ekki verið löng og verður ekki löng því að ég lýk þátttöku þar í vor. Hins vegar er þetta samstarf, og ég vil láta það koma fram í lok þessara orða, afskaplega mikilvægt fyrir okkur og hefur skilað íslenskri þjóð og mun skila henni og ekki síst ungu fólki miklu og mun gera það áfram.