133. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2007.

virkjunarframkvæmdir í neðri Þjórsá.

[13:34]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Ég vil geta þess í upphafi að hv. málshefjandi beinir til mín afar huglægum spurningum um afstöðu mína til eignarnáms á grundvelli raforkulaga sem eru ekki á mínu forræði sem umhverfisráðherra. Ég áskil mér því rétt til þess, frú forseti, að svör mín verði jafnframt huglæg.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að talsverðar deilur hafa staðið að undanförnu um það hvort vatnsafl í neðri Þjórsá verði virkjað yfir höfuð eða ekki. Á hinum endanum er síðan Landsvirkjun og fyrirhugaður kaupandi orkunnar sem er stækkað álver Alcans í Hafnarfirði. Það er deilt í Hafnarfirði um stækkun álversins og fyrirhugaðar kosningar íbúa um skipulag sem gerir ráð fyrir stækkuðu álveri. Í ljósi þeirra deilna er rétt að skoða bráðabirgðaákvæði III í frumvarpi um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu sem gerir ráð fyrir að lögfesta til ársins 2011 niðurstöður verkefnisstjórnar í 1. áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Í því mun eingöngu felast heimild til að veita leyfi til að nýta virkjunarkosti í flokki a í rammaáætlun og þá í flokki b sem ekki eru gerðar sérstakar athugasemdir við vegna umhverfisverðmæta. Hér er verið að fjalla sérstaklega um virkjun vatnsafls í neðri hluta Þjórsár sem fellur að hluta í flokk a en Urriðafossvirkjun fellur í flokk b. Á meðan ekki liggur fyrir verndaráætlun Alþingis og hin áætlunin um nýtingu auðlinda er ákvörðun um virkjun og nýtingu orku alfarið í höndum sveitarfélaganna sem fara með skipulagsvaldið og landeigenda sem geta kosið að selja eða selja ekki land sitt vegna þessara áforma. Þetta hlýtur að eiga við um alla þá kosti sem metnir hafa verið í 1. áfanga rammaáætlunarinnar í flokk a eða b. Samkvæmt því fellur Urriðafossvirkjun um sjálfa sig á þessu stigi málsins meðan ríkja um hana deilur og standi vilji landeigenda og sveitarstjórna Skeiða- og Gnúpverjahrepps og hins vegar Ásahrepps gegn skipulagi sem gerir ráð fyrir Hvamms- og Holtavirkjunum á það sama við um þær. Af virkjunarframkvæmdum verður þá ekki. Þetta er alveg skýrt, frú forseti, í mínum huga.

Málshefjandi spyr sérstaklega um eignarnám á grundvelli raforkulaga. Um eignarnám vil ég segja að ég fæ ekki séð hvaða samfélagsleg nauðsyn eða almannahagsmunir liggi til grundvallar slíku eignarnámi og ég tala nú ekki um þegar ekki liggur fyrir ótvíræður vilji Alþingis með áðurnefndri áætlun og stefnu um náttúruvernd og auðlindanýtingu. Auk þess gerir skipulagsvald sveitarfélaga og sveitarstjórna ráð fyrir vilyrði þeirra fyrir framkvæmdinni en ólíklegt verður að telja að sveitarstjórnir færu í bága við vilja bænda sem eiga nytjaland með Þjórsá. Að mínu mati nær þetta eignarnámstal engri átt og ég get ekki séð annan tilgang hv. málshefjanda með umræðu um eignarnám en að skapa tortryggni í garð stjórnvalda og skaða gagnsemi mikilvægrar umræðu sem þarf að fara fram um virkjanir, stóriðju og umhverfismál.

Háttvirtum málshefjanda verður tíðrætt um stóriðjustefnu. Stóriðjustefna ríkisvaldsins var aflögð 2003. Eftir sem áður er mikill áhugi á stóriðju í nokkrum sveitarfélögum og sveitarstjórnum og sá áhugi er hjá fulltrúum allra flokka á Alþingi. Á hinu háa Alþingi er málshefjandi meðal þeirra þingmanna sem oftast ræða stóriðju og stóriðjustefnu og eru ýmist með eða á móti virkjunum og álverum eða vilja slá ákvörðunum á frest, a.m.k. fram yfir kosningar í maí eins og niðurstaða varð um á fundi Samfylkingarinnar í gærkvöldi ef marka má fréttir í morgun, allt eftir því hvernig vindurinn blæs í umhverfisumræðunni. Öfugt við Hafnarfjörð virðist meiri friður ríkja um mögulega stóriðju á Húsavík meðal íbúa og sveitarstjórnarmanna. Sama á við um orkuöflunina með háhitavirkjunum í seilingarfjarlægð á Þeistareykjum. Út frá þjóðhagslegum forsendum er frekari uppbygging stóriðju vænlegri í umhverfi þar sem mikils hagvaxtar hefur minna gætt og orkuöflunin er í þokkalegri sátt við umhverfi sitt.