133. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2007.

virkjunarframkvæmdir í neðri Þjórsá.

[13:44]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Huga þarf að ýmsu þegar ákveðið er að ráðast í stórfelldar framkvæmdir eins og áform eru uppi um um þessar mundir af hálfu núverandi ríkisstjórnar. Það liggur fyrir að hún áformar að ráðast í stóriðjuframkvæmdir sem nema um 400–450 milljörðum kr. á næstu árum. Slíkar framkvæmdir rúmast engan veginn í íslensku efnahagslífi eins og dæmin sýna frá yfirstandandi kjörtímabili þar sem of miklar framkvæmdir leiddu til þenslu í þjóðfélaginu. Það leiddi til verðbólgu sem leiðir til þess að skuldir heimilanna eru hærri en ella hefði orðið sem nemur verðmæti einnar Kárahnjúkavirkjunar. Ég spyr: Ætlar núverandi ríkisstjórn að stuðla að því að skuldir heimilanna hækki á næsta kjörtímabili um aðra Kárahnjúkavirkjun vegna of mikilla framkvæmda á of skömmum tíma sem leiða af sér verðbólgu og erfiðan hag almennings á Íslandi?

Í öðru lagi þarf að huga að því að orkuverðið sem raforkan er seld á sé viðunandi. Það gengur ekki lengur, virðulegi forseti, að ríkisstjórnin hafi forgöngu um að selja raforku frá íslenskum virkjunum á lægsta verði í Evrópu. Það er ekki boðlegt að undirbjóða eins og gert hefur verið af íslenskum stjórnvöldum á undanförnum árum. Við þurfum að nýta íslensku auðlindirnar almenningi til heilla en það gerum við ekki með niðursettu verði til stórfyrirtækja erlendis.

Ég held að menn eigi að ganga hægt um gleðinnar dyr í stóriðjuáformum á næstu árum og tek undir áhyggjur málshefjanda í þeim efnum. Það þarf að huga að arðinum sem sannarlega er hægt að hafa út úr nýtingu auðlindanna og tryggja réttláta skiptingu hans milli lands og þjóðar.