133. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2007.

virkjunarframkvæmdir í neðri Þjórsá.

[13:46]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka málshefjanda, hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni, fyrir að færa þetta mál til umræðu á hinu háa Alþingi.

Staðreyndin er sú, frú forseti, að í stóriðjumálum á Íslandi ríkir alveg séríslenskt sambland af stjórnleysi, hreinræktuðu anarkíi og miklu kapphlaupi. Hvernig skyldi standa á því? Það er vegna þess að hér voru sett ný orkulög árið 2003, orkulög sem sjálfstæðismenn eru reyndar nýbúnir að uppgötva að eru ekki alveg nógu góð, þótt þeir hafi verið hrifnir af þeim þá.

Hvað gerðist? Þá hófst þvílíkt kapphlaup orkufyrirtækjanna í auðlindir landsins, vatnsaflið og jarðvarmann. Síðan var sköpuð sú staða sem við þekkjum öll, að sveitarfélögin hafa úrslitavaldið um ákvarðanirnar. Allt annað er í lausu lofti, frú forseti.

Hingað kemur hæstv. umhverfisráðherra og talar um verndaráætlunina sem er ekki til. En hvað ætlar hæstv. umhverfisráðherra að gera? Hvað ætlar Framsóknarflokkurinn að gera? Hvar er rammaáætlunin? Hvar er verndaráætlunin? Á þetta að halda svona áfram? Landsvirkjun er á grænu ljósi. Hún má gera það sem henni sýnist með stjórnleysislegri blessun Framsóknarflokksins að mér virðist og Sjálfstæðisflokksins. Það er ekkert annað í augsýn og á bara að halda áfram, dæla niður álverum hvort sem er í Þorlákshöfn eða annars staðar. Það ber enginn ábyrgð í þessu máli.

Hvað varðar Samfylkinguna í Hafnarfirði, af því að ég varð ekki vör við það á fundinum í gærkvöldi að Jónína Bjartmarz væri þar, þá stendur það sem þar á að gera. Íbúar Hafnarfjarðar munu greiða atkvæði um deiliskipulag 31. mars næstkomandi og sú niðurstaða verður niðurstaðan um deiliskipulagið.