133. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2007.

virkjunarframkvæmdir í neðri Þjórsá.

[13:50]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég kýs að halda mig við efni þessarar umræðu ólíkt því sem hv. ræðumaður sem talaði á undan mér gerði. Virkjanir í neðri Þjórsá og áform um þær helgast af stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Það er misskilningur hjá hæstv. umhverfisráðherra að hún hafi verið blásin af árið 2003. Hins vegar reynir stjórnarmeirihlutinn að koma þeim skilningi yfir til þjóðarinnar og kjósenda að svo sé, að nú sé þetta allt í höndum sveitarfélaganna. Auðvitað hafa stjórnvöld reynt að koma því þannig fyrir að velta ábyrgðinni af ákvarðanatöku sinni frá því fyrir löngu yfir á sveitarfélög sem í gríð og erg undirbúa baráttu gegn fyrirætlunum þessarar ríkisstjórnar. Í Hafnarfirði undirbúa menn atkvæðagreiðslu vegna deiliskipulagstillögu álverslóðarinnar í Straumsvík og nú er það sama uppi á teningnum austur í sveitum vegna skipulagstillagna í kringum hugmyndir um Þjórsárvirkjanir.

Sannleikurinn er sá að efnahagsstjórn þessarar ríkisstjórnar gerir ráð fyrir því að farið verði í þessar stóriðjuvirkjanir. Ef við værum skynsöm, þjóðin og þingið, mundum við kannski fara að tillögu sem einn ágætur fjölmiðlamaður kom með í sjónvarpsþætti í síðustu helgi, að leggja niður álverið í Straumsvík því þá losnar um rafmagn sem framleitt er í Þjórsá. Þá getum við stækkað almannaveiturnar okkar og raforkusölu til almennra iðnfyrirtækja umtalsvert án þess að fara út í frekari náttúruspjöll. Þjóðin krefst þess að óráðsían verði stoppuð.

Orkufyrirtækin hafa því miður reynt að koma öllu sínu á þurrt í þessum efnum. Þau eru búin að skjóta stjórnvöldum ref fyrir rass og ég er hrædd um að nýtingaráætlunin sem stjórnvöld hafa lagt til í frumvarpi sé marklaus vegna þess að orkufyrirtækin eru þegar komin langt fram úr stjórnvöldum og ætla sér að koma þessum virkjunum öllum í framkvæmd. Við getum hins vegar stoppað það.