133. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2007.

virkjunarframkvæmdir í neðri Þjórsá.

[13:53]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Þessar þrjár rennslisvirkjanir, neðarlega í Þjórsá, eru án efa hagkvæmar og ágætar virkjanir hver fyrir sig. Hins vegar er þessi umræða um heimildir til að taka land eignarnámi fráleit, að nokkur stjórnvöld, hvað þá heldur ríkisfyrirtæki eins og Landsvirkjun geti beitt því. Það eru engin almannaheill sem kallar á það þótt einhvern tímann hafi menn talið það í upphafi rafvæðingar á Íslandi. Þá er það bara þannig að menn verða að semja.

Það eru ekki möguleikar á neinni virkjun nema menn semji við landeigendur. Ef þeir vilja ekki semja þá verða engir samningar. Ef þeir vilja hátt verð þá verður að endurmeta arðsemi Landsvirkjunar, endurmeta rafmagnsverðið. Ef enginn vill kaupa þá verður ekkert virkjað. Þetta getur ekki byggst á neinu öðru. Það er alveg hárrétt sem hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir sagði fyrir nokkrum dögum. Við skulum bara vera róleg. Það liggur ekkert á.

Sannleikurinn í íslenskum efnahagsmálum er sá í dag að ekkert liggur á. Það liggur ekkert á að virkja. Það verður bara að meta á hverjum tíma hvort grundvöllur er fyrir því efnahagslega eða ekki. Það eina sem liggur á í íslenskum efnahagsmálum í dag er að ná þessum vöxtum niður, þessum himinháu ruglvöxtum. Það er höfuðnauðsyn. Að því verðum við að vinna og það verðum við að gera. Það er aðalatriðið. Þannig getum við komist út úr þessari gríðarlegu spennu sem er að rugla allt hjá öllum. (KolH: Hver er ástæðan fyrir henni?) Það er stefnan í Seðlabankanum í peningamálum sem aðilar vinnumarkaðarins, bæði atvinnurekendur og launþegar, gerðu kröfu um að yrði horfið frá ásamt stuðningi ríkisstjórnarinnar á síðasta sumri. En því miður báru þeir ekki gæfu til þess þá hvorki að þiggja ráð né þýðast viðvaranir. (KolH: En Kárahnjúkavirkjun?)