133. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2007.

virkjunarframkvæmdir í neðri Þjórsá.

[13:55]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Þetta ósætti um þessa virkjun, eða fyrirhugaðar virkjanir sem fóru í gegnum umhverfismat fyrir þremur árum, er umhugsunarefni, að þessi mikla umræða skuli gjósa upp núna. En hvers vegna ætli það sé? Ætli það sé ekki vegna ósættis um verðlagningu á þessari orku sem á að koma frá virkjununum? Það er leynd í kringum það.

Í öðru lagi má ætla að ein rót vandans sé að fara eigi í eignarnám fyrir ríkisfyrirtæki sem til stendur að ráðstafa síðar, örugglega til velunnara stjórnarflokkanna, ef farið verður að eins og gert var með Búnaðarbankann. Við höfum haft fleiri dæmi um slíkt, svo sem fiskimiðin sem stjórnarflokkarnir reyna að festa í kerfi þar sem ráðstafa megi fiskimiðunum. Fólk er farið að tortryggja mjög þessa ríkisstjórn.

Síðan má eflaust nefna fleiri ástæður, svo sem þensluna sem er rétt að slá á. Við erum með verðbólgu sem slagar hátt í 8% og samt sem áður eru boðaðar stórframkvæmdir á svæði þar sem þensla ríkir, hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er auðvitað ekkert vit í því að boða framkvæmdir upp á mörg hundruð milljónir. Það væri miklu nær að horfa til landshluta þar sem engin þensla ríkir, svo sem á norðausturhorninu og ræða vistvænar virkjanir, svo sem í tengslum við stóriðjuframkvæmdir á Húsavík, orkufrekan iðnað þar. En það er ekki gert.

Í staðinn skal áfram rekin sú stefna að fara í framkvæmdir þar sem þensla ríkir. Hér ríkir stórundarlegt ástand í stjórn efnahagsmála. Við í Frjálslynda flokknum teljum að horfa eigi á hlutina af meira raunsæi en ríkisstjórnin gerir þessa dagana.