133. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2007.

virkjunarframkvæmdir í neðri Þjórsá.

[13:57]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmönnum og hæstv. ráðherra fyrir merkilega umræðu.

Það er ljóst, samkvæmt því sem mátti skilja á hæstv. umhverfisráðherra, að gömlu rökin um eignarnám vegna stóriðju eiga ekki við lengur. Þar kemur fram mikilvæg afstaða hjá hæstv. ráðherra, að breytingin á raforkulögunum hafi haft í för með sér að það sé alvarlegum vafa undirorpið eða úr sögunni að fara í eignarnám í þágu virkjana, stóriðjufyrirtækja sem koma hingað af því að hér er orkan á tombóluprís. Það eru merkilegar yfirlýsingar og þessi yfirlýsing hæstv. ráðherra og hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar hlýtur að þýða að náttúruverndarsinnar og samtök geti boðið í jarðir á móti Landsvirkjun þannig að verðgildið komi þannig fram og jafnvel komið í veg fyrir virkjanir, þ.e. eigi að virkja fyrir stóriðju með því hreinlega að kaupa upp jarðirnar. Þessar yfirlýsingar hæstv. ráðherra og hv. þingmanns hljóta að sjálfsögðu að þýða það. Það er merkileg pólitísk yfirlýsing.

Það var merkilegt að hlusta á hæstv. ráðherra og hv. þingmann lýsa því svo afdráttarlaust yfir að eignarnám á þessum stað og á þessum jörðum fyrir þessa stóriðjuframkvæmd eigi alls ekki við og komi ekki til greina. Það er stórmerkileg yfirlýsing og breytir að sjálfsögðu verulega gangi málsins.

Landsvirkjun verður að ná samningum eigi nokkur möguleiki að vera um þessar virkjanir. Eftir stendur að það gengur hreinlega ekki lengur, um það virðist þverpólitískur vilji á Alþingi, að eignarnámi sé beitt í þessu máli af þeirri hörku og því pólitíska ofbeldi sem eignarnám alltaf er, sama hvert markmiðið er. Það virðist alls ekki eiga við í þessu máli og þess vegna hljótum við að ítreka kröfuna um að stóriðjuframkvæmdum í landinu verði slegið á frest þangað til búið er að koma skikki á þessi mál og áætlun um bæði verndun og nýtingu liggi fyrir.