133. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2007.

Norræna ráðherranefndin 2006.

569. mál
[14:27]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef setið í Vestnorræna ráðinu í bráðum fjögur ár mér til mikillar ánægju og upplýsingar. Ég þekkti þessi tvö samstarfslönd okkar, Færeyjar og Grænland, ekki vel áður en ég tók sæti í ráðinu og hafði t.d. aldrei komið til Færeyja. Það er mjög gaman að kynnast því hvað þessar þjóðir eru á ýmsan máta gjörólíkar en hvað við eigum samt sem áður margt sameiginlegt og hvað við erum svo líkar í hina röndina. Við eigum mjög mikla sameiginlega hagsmuni og þess gætir auðvitað í störfum Vestnorræna ráðsins.

Í dag hefur komið fram í máli manna sem hafa fjallað um norrænu skýrslurnar að umhverfismál eru mikið á döfinni þar. Hið sama er að segja um Vestnorræna ráðið, enda gætir umhverfisbreytinga, hitnunar í andrúmsloftinu og mengunar, ekki síst nyrst á jörðinni. Eru afleiðingarnar þar afar alvarlegar, t.d. hvað varðar bráðnun íss á Grænlandi. Áhrifin á höfin í kringum þessi þrjú lönd eru sennilega mjög ógnvænleg. Margt bendir til þess að þar gæti verið afar mikil hætta á ferðum.

Vestnorræna ráðið hélt í fyrsta sinn þemadag á ársfundi sínum í Færeyjum og sá þemadagur fjallaði einmitt um umhverfismál. Þar hélt erindi m.a. títtnefndur Bogi Hansen sem minnst var á áðan, ásamt fleiri vísindamönnum færeyskum og annarra þjóða. Þeir sýndu okkur í máli og myndum hverjar afleiðingar verða sennilega af hlýnun andrúmsloftsins á hafið, hafstraumana, fiskstofnana, hækkun sjávarborðs og allt okkar líf. Það er auðvitað ábending til okkar um að við þurfum strax að grípa til varna og breyta lífsháttum okkar ef við ætlum ekki að kalla yfir okkur allar þær afleiðingar í mjög miklum mæli sem við vorum vöruð við á þessari þemaráðstefnu.

Við getum gert ýmislegt í þeim málum og byrjað heima hjá okkur eins og hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir benti á áðan, t.d. með því hvernig við nýtum einkabílinn okkar og yfirleitt hvers konar einkabíla við veljum. Bogi Hansen vísindamaður benti okkur einnig á að fara vel með rafmagnið heima hjá okkur, ef ég man rétt. Það er nokkuð sem allir geta passað, hver um sig. (ÁRJ: Orkusparnaður.) Það er orkusparnaður almennt, við megum þó flest brenna orkuna sem safnast í miklum mæli utan á okkur.

Á þemaráðstefnunni á Grænlandi í vor var fjallað um ferðamál. Það er annar vettvangur þar sem Ísland, Grænland og Færeyjar eiga margt sameiginlegt og geta stutt hvert annað. Það gerum við að vissu leyti, t.d. með samvinnu í samgöngumálum, en þó ekki eins og hægt væri. Ýmsar hindranir eru í veginum, t.d. einkaleyfi dönsku flugfélaganna á ákveðnum flugleiðum. Þó var það boðað í sumar í Maniitsoq að Flugfélag Íslands væri að hefja flug til tveggja nýrra áfangastaða á Grænlandi, Maniitsoqs og Illulisats sem eru tveir mestu ferðamannastaðir Grænlendinga á vesturströndinni.

Sú hugmynd kom út úr þessari ráðstefnu á Grænlandi að koma á samstarfi um menntamál, þ.e. menntun í ferðaþjónustugeiranum, á milli Íslands, Grænlands og Færeyja. Skrifað var bréf í sumar til ferðamálafulltrúanna á Grænlandi og í Færeyjum. Það er gaman að geta sagt frá því að undirbúningur er hafinn að samstarfi í þessu efni á milli þessara þriggja landa. Aðili hefur komið frá Grænlandi að Háskólanum á Hólum í Hjaltadal til að skipuleggja nám í ferðamálafræðum sem yrði að mestu leyti fjarkennt til a.m.k. Grænlands og væntanlega Færeyja sem að vísu hefur ekki komið að undirbúningi enn þá en ég geri mér góðar vonir um að þeir komi til. Þar er einnig áhugi og þörf sem við getum uppfyllt með kennslu héðan.

Svo getur verið stór hagur fyrir Íslendinga að efla streymi til þessara tveggja landa í gegnum Ísland. Það er aukakostur sem ferðamönnum býðst ef hér verður hægt að koma á framhaldi ferða ýmist til Grænlands eða Færeyja. Það hefur verið hægt á einn áfangastað á Grænlandi þó nokkuð lengi, til Kulusuks mjög lengi, en nú eru staðir að bætast við sem er ákaflega ánægjulegt.

Í þeim ályktunum sem Vestnorræna ráðið samþykkti á ársfundinum í Þórshöfn má sjá hvaða mál hafa verið til umræðu, ræðisskrifstofur sem á að fara að opna, þá fyrri af Íslands hálfu í Færeyjum þann 1. apríl væntanlega. Samningur verður um útvíkkun fríverslunarsamnings til Grænlands en slíkur er nú þegar í gildi milli Íslands og Færeyja. Ferðamálastefnan sem ég ræddi áðan hefur líka verið til umræðu. Síðan er tillaga um kennslu vestnorrænnar menningar í grunnskólum og það er einmitt ágætt dæmi um mismunandi viðtökur sem ályktanir frá ráðinu fá. Sú tiltekna ályktun virðist vekja allnokkrar spurningar meðal nágranna okkar. Þeir halda að ef hún kemst í gagnið muni hún e.t.v. taka of mikið frá annarri tungumálakennslu í löndunum. Ég held að kannski sé ekki aðalatriðið að við förum að kenna hvert öðru tungumálið en ég held að það sé mjög gott að fræða börn og unglinga í nágrannalöndum okkar um menningu þessara þriggja landa og hvetja þau til að kynnast nágrönnum sínum.

Síðasta tillagan er líka afrakstur þemaráðstefnu um heilbrigðismál sem haldin var í Illulisat árið 2003, en þar kom fram að reykingar eru rótin að mesta heilbrigðisvanda Dana. Rekja má hjartasjúkdóma til reykinga, krabbamein líka og ég þarf ekki að telja meira upp, þingmenn vita það. (ÁRJ: Hvaðeina.) Hvaðeina, já. Þarna kom fram tillaga um að við sameinuðumst um fræðslu í tóbaksvörnum. Við Íslendingar höfum staðið okkur vel í þeim efnum og getum miðlað af góðri reynslu.

Margar ályktanir Vestnorræna ráðsins hafa verið afskrifaðar vegna þess að þær komast ekki í framkvæmd. Ég vona að þær tillögur sem við samþykktum árið 2006 komist í framkvæmd enda held ég að á því séu frekar góðar líkur þar sem ýmsar þeirra eru að komast í framkvæmd eða eru þegar komnar í framkvæmd. Þar má t.d. nefna samstarf um kennslu í ferðaþjónustunni, og opnun ræðismannsskrifstofu stendur fyrir dyrum eins og ég sagði áðan.

Barnabókaverðlaunin vestnorrænu eru afhent annað hvert ár. Nú komu þau í hlut Færeyinga sem var ákaflega ánægjulegt. Þessi verðlaun hafa komið í hlut Íslendinga hingað til og manni fannst það orðið hálfpínlegt að þau kæmu alltaf í okkar hlut. Nú fékk sem sagt Færeyingur verðlaunin. Stefnan hefur verið, og vonin, að bækurnar yrðu þýddar á hin tungumálin tvö, þá yfir á færeysku og grænlensku vegna þess að Ísland hefur fengið þessi verðlaun, en það hefur því miður ekki orðið. Vonandi verður það einhvern tímann siður að þessar bækur komi út á öllum tungumálunum þrem. Það er ekki síður mikilvægt en annað að kynna börnunum menningu hinna þjóðanna með þeim hætti að gefa þeim færi á að lesa bókmenntir þjóðanna á sínu eigin tungumáli.

Ég sé í skýrslunni að mikil umræða hefur verið í Norðurlandaráði um aðild vestnorrænu ráðanna í Færeyjum og Grænlandi að Norðurlandaráði. Þau hafa aðeins haft þar áheyrnarseturétt til þessa en hafa óskað eftir því árum saman að fá þar fullan rétt á borð við hinar þjóðirnar. Það hefur ekki komist í gegn og ég held að umræðan hafi ekki hafist af alvöru fyrr en í tíð hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur sem forseta Norðurlandaráðs. Það virðist því vera alvarleg hreyfing á því máli að þessu sinni og það er gleðiefni.

Ég tek undir með öðrum þingmönnum sem hafa þakkað starfsmönnum sem hafa aðstoðað okkur þingmenn í þessum ferðum okkar. Ekki verður á betra kosið í því efni og ferðafélagarnir eru allir af bestu gerð.