133. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2007.

Norræna ráðherranefndin 2006.

569. mál
[14:41]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Mig langaði í fáum orðum undir lokin á umræðunni að þakka úr þessum ræðustól sérstaklega fyrir umræðuna. Fulltrúar í Íslandsdeild Norðurlandaráðs hafa komið í ræðustól og flutt margar og góðar ræður, hafa m.a. dregið fram þau mörgu og mikilsverðu verkefni sem unnið er að í norrænu samstarfi undir hatti Norðurlandaráðsins.

Eins og ég kom að í ræðu minni hefur samstarfið verið gott milli norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs. Það var ágætt á þessu ári eins og endranær. Ég gat þess jafnframt að þetta samráð varðar einkum fjárlögin, bæði undirbúning árlegra fjárlaga og jafnframt endurskipulag eða nýskipan í norrænni fjárlagagerð, sem var unnið sérstaklega að á þessu ári. Af hálfu ráðherranefndarinnar er talið mjög mikilsvert að Norðurlandaráð komi að fjárlagagerðinni á sem flestum sviðum, bæði þannig að hægt sé að taka tillit til sjónarmiða og óska þingmanna og jafnframt, sem er nú markmiðið, að pólitískar áherslur endurspeglist í fjárlögunum.

Frú forseti. Í þessari umræðu hafa fleiri en einn og fleiri en tveir nefnt sérstaklega stöðu sjálfsstjórnarsvæðanna, sjálfsstjórnarlandanna eins og ég kýs frekar að kalla Færeyjar, Grænland og Álandseyjar. Það hefur m.a. verið rifjað upp að Færeyingar tilkynntu árið 2002 að þeir sæktust eftir fullri aðild að Norðurlandaráði. Síðan hefur þetta verið heilmikið í umræðunni og á árinu 2006 var skilað úttekt nefndar sem skipuð var lögfræðingum og þjóðréttarfræðingum. Þeirri úttekt var m.a. ætlað að fjalla um raunverulega stöðu sjálfsstjórnarsvæðanna gagnvart Norðurlöndum, norræna samstarfinu og þeim samningum sem norræna samstarfið byggir á. Samstarfsráðherrar Norðurlandanna hafa oft fjallað um þessa úttekt og talið þörf á að kanna frekar þær hindranir sem standa í vegi fyrir fullri aðild sjálfsstjórnarlandanna. Þá er fyrst og fremst horft til frænda okkar, Færeyinga, sem hafa öðrum fremur lýst yfir þessum áhuga sínum og sótt það fastar en Grænlendingar og Álandseyingar að fá sterkari stöðu eða fulla aðild að Norðurlandaráði.

Að frumkvæði Grænlendinga en með mjög öflugum stuðningi Færeyinga var ákveðið í desember sl. í hópi samstarfsráðherra að skipa vinnuhóp til að gera úttekt á því í hvaða norrænu nefndum og stjórnum sjálfsstjórnarlöndin hefðu sömu aðild og norrænu ríkin fimm, og í hvaða nefndum og stjórnum þau hefðu ekki sömu aðild. Þá var gert ráð fyrir því að gerð yrði grein fyrir því í hverju tilviki fyrir sig hver ástæða þess væri að sjálfsstjórnarlöndin hefðu ekki þessa sömu aðild. Ákvörðun um umboð fyrir þennan hóp verður væntanlega tekin á samstarfsráðherrafundi eftir helgi, og að tillögu forsætisráðherranna eru Finnland og Danmörk að skoða hvaða möguleikar eru á því að bæta stöðu sjálfsstjórnarlandanna í norrænu samstarfi með einhliða aðgerðum þessara ríkja, Finnlands og Danmerkur.

Ég sé það ekki beinlínis fyrir mér að þessum væntanlega vinnuhóp verði gert að koma með tillögur, hvorki um breytingar á Helsinki-samningnum né um annað. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þegar þar að kemur muni norræna samstarfsnefndin móta tillögurnar og leggja þær fyrir samstarfsráðherrana áður en þær verða sendar til forsætisráðherra. Eins og ég hef þegar sagt er stefnt að því að þessu máli ljúki á þingi Norðurlandaráðs í haust með því að samstarfsráðherrarnir leggi fram tillögur um hvernig megi bæta stöðu sjálfsstjórnarlandanna í norrænu samstarfi.

Kannski hefði verið vert, frú forseti, að fara aðeins yfir endurskipulagningu á norræna menningarsamstarfinu en af því að ég er hér að ræða sérstaklega stöðu sjálfsstjórnarlandanna vil ég láta þess getið að í tengslum við mikla endurskipulagningu á norrænu menningarsamstarfi fólu menningarráðherrar Norðurlandanna vinnunefnd embættismanna það verkefni að skila skýrslu um hvernig þátttaka sjálfsstjórnarlandanna og smærri málsamfélaga á Norðurlöndum yrði tryggð sem best í þessu nýja skipulagi menningarmála í framtíðinni. Megintillögur þessarar nefndar snúa að því að tryggja sjálfsstjórnarlöndunum þátttöku í nefndum ráðherranefndarinnar á jafnréttisgrundvelli, efla starfsemi norrænu húsanna og að tryggt verði að upplýsingar um starfsemi Kulturkontakt Nord séu ávallt fyrirliggjandi á öllum norrænu tungumálunum.

Þessa vildi ég nú láta getið sem lýtur að stöðu sjálfsstjórnarlandanna í norrænu samstarfi en það hefur ekki farið á milli mála í þeirri umræðu sem farið hefur fram á vettvangi norræns samstarfs, bæði innan ráðherranefndarinnar og eins Norðurlandaráðsins, að Færeyingar sem hafa sótt þetta fastast eiga hauk í horni þar sem við Íslendingar erum.