133. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2007.

ÖSE-þingið 2006.

627. mál
[16:34]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Frú forseti. Ég flyt hér skýrslu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins fyrir árið 2006 á þskj. 935. Vil ég fylgja skýrslunni úr hlaði með örfáum orðum í fjarveru formanns Íslandsdeildar, hv. þm. Péturs H. Blöndals, sem nú er einmitt staddur á vetrarfundi ÖSE-þingsins í Vín.

Ársskýrsla Íslandsdeildar fyrir árið 2006 gerir störfum þingmannanefndar ÖSE-þingsins ítarleg skil auk skipan Íslandsdeildarinnar. Ég mun því aðeins stikla á stóru en vísa að öðru leyti í skýrsluna sem mælt er fyrir.

Íslandsdeild ÖSE-þingsins var að venju afar virk í störfum sínum á árinu. Ber þar að nefna að meðlimir Íslandsdeildar tóku virkan þátt í nefndastörfum og almennum þingumræðum á ársfundi þingsins í Brussel. Umræða um eftirlit nefndar á vegum ÖSE-þingsins með fjármálum ÖSE hélt áfram og hélt hv. þm. Pétur H. Blöndal, formaður Íslandsdeildarinnar, merki hennar á lofti. Í kjölfar þess var formaðurinn skipaður sérstakur fulltrúi forseta ÖSE-þingsins varðandi fjármál ÖSE.

Aðildarríkjum ÖSE og ÖSE-þingsins fjölgaði um eitt árið 2006. Svartfjallaland varð sjálfstætt ríki þegar það sleit ríkjasambandi við Serbíu. Þrátt fyrir fjölgun aðildarríkja á ÖSE enn í nokkrum erfiðleikum með að finna sér skýrt skilgreindan stað í stofnanaskógi evrópsks milliríkjasamstarfs. Enn er verið að vinna úr niðurstöðum nefndar vísra manna um framtíðarhlutverk ÖSE sem skilaði niðurstöðum sínum árið 2005. Ekki er útlit fyrir að tillögur nefndarinnar nái allar fram að ganga og að grundvallarbreytingar verði á skipulagi og starfi ÖSE á næstu missirum.

Skýran greinarmun verður að gera á ÖSE annars vegar og ÖSE-þinginu hins vegar þótt stofnanirnar séu að sjálfsögðu tengdar. Starfsemi ÖSE fer fram í umboði stjórnvalda aðildarríkjanna 56 líkt og gildir um aðrar alþjóða- og milliríkjastofnanir. Stofnunin er samráðsvettvangur ríkisstjórna aðildarríkjanna. Fulltrúar þeirra sitja því fundi ÖSE og taka ákvarðanir fyrir hönd þeirra. ÖSE-þingið starfar hins vegar í umboði þjóðþinga aðildarríkjanna en þing allra aðildarríkja ÖSE eiga fulltrúa á þinginu. Fulltrúar þjóðþinga sitja því fundi ÖSE-þingsins og greiða atkvæði eftir eigin sannfæringu en ekki afstöðu eigin ríkisstjórnar.

Frú forseti. ÖSE-þingið er samkunda 320 þingmanna frá öllum 56 aðildarríkjum ÖSE og hefur starfað í núverandi mynd frá árinu 1992 er fyrsti ársfundurinn fór fram í Búkarest. Á þeim fundi var ákveðið að stofna skrifstofu ÖSE-þingsins sem var staðsett í Kaupmannahöfn. Samskipti ÖSE og ÖSE-þingsins eru helst í því formenn að helstu forsvarsmenn ÖSE ávarpa þingfundi og nefndarfundi og svara spurningum þingmanna. Þá eru ályktanir ársfundar ÖSE-þingsins lagðar fyrir stofnunina og þeim svarað af hálfu framkvæmdarvaldsins. Þá er vonast til að með stofnun áðurnefndrar sérnefndar um fjármál ÖSE að eftirlitshlutverk ÖSE-þingsins muni aukast til muna.

Í ársskýrslunni er greinargóð lýsing á uppbyggingu ÖSE og verður því ekki farið nánar út í það hér. Ég vil þó nefna mikilvægustu atriðin í starfi stofnunarinnar. Einn mikilvægasti og sýnilegasti hluti starfsemi ÖSE á sér stað hjá vettvangsskrifstofum stofnunarinnar og hefur hann náð að skila afar miklum árangri, ekki síst á síðustu árum. Fulltrúar ÖSE sem starfa á vettvangsskrifstofum stofnunarinnar starfa náið með valdhöfum í þeim ríkjum eða héruðum þar sem starfið fer fram og veita m.a. liðsinni við að efla innviði lýðræðis og mannréttinda auk annarra þátta.

Átökin á Balkanskaga á tíunda áratug síðustu aldar urðu til þess að ÖSE hlaut viðamikið hlutverk við uppbyggingarstarf. Vegur og virðing stofnunarinnar jókst í kjölfarið og umsvifin jukust í hlutfalli við það. Kákasuslýðveldin og Mið-Asíuríkin hafa notið samstarfsins við ÖSE í ríkum mæli á síðustu árum og missirum og ljóst er að mun meiri pólitísk vigt hefur verið lögð í að aðstoða ríkin í þessum heimshlutum. Af öðrum verkefnum má nefna kosningaeftirlit og baráttuna gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi, t.d. með alþjóðlegri samvinnu á sviði löggæslumála. Þá hefur ÖSE reynst afar mikilvægur samráðsvettvangur fyrir mörg önnur knýjandi málefni líkt og baráttuna gegn mansali, eiturlyfjasmygli og vopnasmygli.

Helsti styrkur ÖSE felst í fjölda aðildarríkjanna og tengingunni yfir Atlantshafið og austur til Mið-Asíu. Er stofnunin því breiður samráðs- og samvinnuvettvangur ólíkra ríkja sem hafa sett sér sömu markmið. ÖSE hefur mikilvægu hlutverki að gegna í því að efla samfélagslegt öryggi borgaranna á grunni forsendna um lýðræði, mannréttindi og réttarríkið og nýtist það starf einkar vel í baráttunni gegn hryðjuverkum, mansali og þjóðernisofstæki.

Hæstv. forseti. Lýðræðislegt eftirlit með alþjóða- og milliríkjastofnunum er eitt mikilvægasta verkefni alþjóðlegra þingmannasamtaka. ÖSE-þingið hefur um árabil stefnt að auknu eftirliti með ÖSE og sérstaklega fjármálum stofnunarinnar. Nýr forseti ÖSE-þingsins, sænski þingmaðurinn Göran Lennmarker, hefur lýst því yfir að hann telji þetta eitt mikilvægasta verkefni þingsins. Í viðleitni til þess að styrkja eftirlitshlutverk þingsins skipaði forseti þess hv. þm. Pétur H. Blöndal, formann Íslandsdeildar, sérstakan fulltrúa sinn varðandi fjármál ÖSE í október 2006.

Skipun Péturs sem sérstaks fulltrúa þingforsetans kom í kjölfar þess að árið 2004 var stofnuð á vegum ÖSE- þingsins sérnefnd um fjármál ÖSE. Formaður Íslandsdeildar átti frumkvæði að stofnun nefndarinnar og sat í henni. Nefndinni var umfram allt ætlað að auka gagnsæi í starfsemi ÖSE og eftirlit með þeim fjármunum sem aðildarríkin veita til stofnunarinnar. Líkt og með flestar aðrar alþjóðastofnanir er lýðræðislegt eftirlit með fjárveitingum til ÖSE ekkert eftir að framlög aðildarríkjanna hafa verið greidd. Þingið er að eigin mati eini vettvangurinn fyrir slíkt lýðræðislegt eftirlit og hefur formaður Íslandsdeildarinnar um árabil hvatt þingið til þess að styrkja starfsemi sína á þessu sviði. Framkvæmdarvaldið telur hins vegar að ÖSE-þingið hafi hvorki stofnanalega né lagalega stöðu til þess að sinna þessu eftirliti. Það telur þvert á móti að hvert þjóðþing sé ábyrgt fyrir eftirliti með eigin fjárframlögum til stofnunarinnar.

Á ársfundi ÖSE-þingsins í Brussel vakti hv. þm. Pétur H. Blöndal á ný athygli þingsins á skorti á lýðræðislegu eftirliti þess með starfsemi ÖSE og takmörkuðu starfi sérnefndarinnar um fjármál ÖSE fram að því. Hann lagði einnig fram spurningu til framkvæmdastjóra ÖSE um upplýsingagjöf stofnunarinnar til þingsins varðandi fjármál hennar. Í kjölfar ársfundarins skrifaði formaður Íslandsdeildar nýjum forseta ÖSE-þingsins bréf þar sem hann ítrekaði afstöðu sína um mikilvægi lýðræðislegs eftirlits með fjármunum ÖSE. Í svari forseta ÖSE-þingsins við bréfinu kvaðst hann sammála formanni Íslandsdeildarinnar og að sér væri umhugað um eftirlitshlutverk þingsins. Í kjölfar þess ákvað forseti ÖSE-þingsins að besta leiðin til þess að styrkja lýðræðislegt eftirlit með ÖSE og fjármunum stofnunarinnar væri að leysa sérnefndina upp og skipa í hennar stað hv. þm. Pétur H. Blöndal sem sérstakan fulltrúa sinn varðandi fjármál ÖSE. Mun formaður Íslandsdeildar skila reglulegum skýrslum um starf sitt til forseta ÖSE-þingsins.

Áhugi þingmanna á fjármálum ÖSE og þrýstingur þingsins um úrbætur hefur vafalítið átt þátt í því að á undanförnum árum hefur fjárveitingaferli stofnunarinnar verið einfaldað, framsetning fjárlaga þess batnað og upplýsingagjöf til ÖSE-þingsins aukist. Framkvæmdarvaldið hefur þó hafnað því að þingið hafi hlutverki að gegna við eftirlit með fjármunum stofnunarinnar. Þrátt fyrir það hafa ríkisstjórnir aðildarríkjanna og flest formennskuríkin lagt áherslu á vilja sinn til aukins samstarfs við þingið.

Frú forseti. Mikið og merkt starf fer fram hjá ÖSE-þinginu og í nefndum þess. Ætla ég ekki að tíunda hér allt það sem fram hefur farið á þeim fundum heldur vísa til ársskýrslunnar sem liggur fyrir þinginu í því samhengi. Undir skýrsluna rita hv. þm. Pétur H. Blöndal, formaður nefndarinnar, hv. þm. Sæunn Stefánsdóttir, varaformaður nefndarinnar, og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir.