133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

þjónusta við alzheimersjúklinga -- atvinnumál á Ísafirði.

[15:03]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Undanfarið höfum við fylgst með umfjöllun um alzheimersjúklinga og aðstandendur þeirra í sjónvarpinu. Engum dylst sem á hafa hlýtt að þjónustu við þá er að mörgu leyti ábótavant. Ég kveð mér hljóðs til að ræða tvennt við hæstv. heilbrigðisráðherra, annars vegar fækkun skammtímarýma fyrir þá sjúklinga og hins vegar greiðsluþátttöku maka þegar sjúklingur er kominn inn á hjúkrunarrými eftir langa bið.

Í vikunni fékk ég erindi frá maka alzheimersjúklings sem spyr mig hvort eðlilegt sé að rukka hana í febrúar fyrir daggjöld sjúklingsins, sem reyndar er búinn að vera inni á heimilinu síðan í júní. Hún fær rukkun fyrir vistgjöld í janúar og febrúar upp á 284 þús. kr. Þessi aðstandandi er grunnskólakennari hér í borg, ég hélt að grunnskólakennarar væru nú ekki aflögufærir af þeim launum sem þeir hafa í dag, en hún fékk þá skýringu frá Tryggingastofnun að með nýrri reglugerð ætti hún að greiða 35% af launum sínum í daggjöld fyrir maka.

Reyndar er það svo að viðkomandi sjúklingur á að greiða lífeyrissjóðinn sinn inn í þetta, sem eru rúmar 110 þús. kr., en samkvæmt upplýsingum á gíróseðlinum sem hún fékk á hann að halda eftir 53 þús. kr. af þeim peningum fyrir sjálfan sig. En þessi kona gat ekki fundið það út að hann héldi því, eftir útreikningana á þeirri rukkun sem hún hefur fengið.

En ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Finnst henni þetta eðlileg afgreiðsla? Og innheimtubréfin eru þannig að ekki er skýrt hvers vegna er verið að rukka þetta.

Síðan vildi ég spyrja hæstv. ráðherra: Eru fleiri aðstandendur ungra alzheimersjúklinga, eða yngri hjúkrunarsjúklinga, sem fá svona rukkanir í framhaldi af þeirri reglugerðarbreytingu sem gerð var í desember?

Og að síðustu vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig hyggst hún ráða bót á fækkun plássa til skammtímavistunar fyrir heilabilaða, en þeim hefur fækkað úr fjórum niður í eitt á mjög skömmum tíma á Landakoti?