133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

þjónusta við alzheimersjúklinga -- atvinnumál á Ísafirði.

[15:14]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Í tilefni af þeirri umræðu sem hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir hóf fyrr í dag tel ég rétt að hafa í huga og nefna það að heildarfjöldi hjúkrunarrýma á Íslandi er 2.554. Þar af eru 362 hjúkrunarrými sérstaklega ætluð heilabiluðum, en það eru 15%. Í upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu kemur fram að deildir fyrir heilabilaða eru 27 talsins á landinu öllu. Ég vil hins vegar vekja sérstaka athygli hv. þingmanna á því að nú stendur fyrir dyrum að fjölga hjúkrunarrýmum um 374 og hæstv. heilbrigðisráðherra hefur kynnt það á þinginu og gert grein fyrir því. Af þeim 374 rýmum er gert ráð fyrir því að 60 verði fyrir heilabilaða. Það stendur því til að fjölga hjúkrunarrýmum um 15%.

Ég vil líka vekja athygli á því að samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2007 er gert ráð fyrir 712 milljónum til framkvæmda við uppbyggingu hjúkrunarrýma. Þar af eru 115 millj. kr. sem sérstaklega var ákveðið á fjárlögum síðasta árs og þessu til viðbótar eru 62 millj., sömuleiðis samkvæmt fjárlögum, sem renna sérstaklega til þriggja hjúkrunarrýma. Ég vek athygli hv. þingmanna á því að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar treystu sér ekki til að veita þessum tillögum stjórnarmeirihlutans atkvæði sitt við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2007. Það er rétt að hafa það í huga, hæstv. forseti.