133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

þjónusta við alzheimersjúklinga -- atvinnumál á Ísafirði.

[15:19]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S):

Virðulegi forseti. Ég deili áhyggjum þeirra þingmanna sem ræddu hér um atvinnuástandið á Ísafirði og skil þær vel. Hins vegar var það ekki erindi mitt í ræðustól, heldur að ræða um málefni minnissjúkra sem hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir byrjaði á við upphaf þessa þingfundar.

Komur á minnismóttöku á Landakoti eru um 1.500 til 1.700 á ári. Þar af eru nýir einstaklingar milli 200 og 300. Það er alveg ljóst að hér þarf að taka á og eins og hæstv. heilbrigðisráðherra kom inn á er unnið að því máli og verið að ráða sérstakan lækni til starfa í heilbrigðisráðuneytinu sem mun sinna þessum málaflokki. Það er vel.

Það var ósköp dapurt að sjá viðtalið við ættingja þessara minnissjúku einstaklinga og alveg ljóst að það er af töluverðu að taka hvað þennan sjúkdóm áhrærir sem virðist vera vaxandi.

Ég vona að okkur takist vel að halda á þessu máli því að þetta er náttúrlega mjög erfitt, bæði fyrir einstaklingana sjálfa og aðstandendur þeirra. Þau úrræði sem þingmenn hafa talið hér upp eru væntanleg og vonandi verður hægt að halda þannig á málum að ekki myndist langir biðlistar eftir að komast á sérstakar deildir fyrir minnissjúka.