133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

umræðuefni í athugasemdum.

[15:41]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Oft hefur það borið við í þingsal að menn hafi rætt fleiri en eitt mál undir liðnum um störf þingsins. Ég held að það sé ekkert nýmæli þó að það sé kannski ekki aðalreglan en menn gera þetta stundum og ekkert óeðlilegt við það. Það sem menn þurfa kannski að passa í því sambandi er að ekki séu rædd svo lík málefni undir þessum lið um störf þingsins að þau verði mjög misskilin. Ég tel að málefnið sem við tókum upp hér og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hóf hafi verið það greinilega aðskilið frá því máli sem hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir hóf að ræða að ekki gæti neitt vafist fyrir mönnum í þingsalnum hver var að ræða hvað eða að þjóðin hafi misskilið það með nokkrum hætti hver var að ræða hvað. Ef við hefðum hins vegar tekið það upp að ræða hjúkrunarvistunarúrræði á Ísafirði með sambærilegum hætti þá hefðu menn kannski blandað málunum saman. Þetta voru mjög aðskilin málefni og getur ekki hafa vafist fyrir neinum að við vorum að ræða hér tvö mál með stuttri innkomu okkar um atvinnumál í Ísafjarðarbæ.

Þetta vildi ég sagt hafa, hæstv. forseti. Ég held að þetta hafi ekki vafist fyrir neinum, a.m.k. gerði forseti ekki neinar athugasemdir við það að menn hæfu umræðu um tvö mál, enda hefur það oft verið gert áður þó að það sé kannski ekki hin algilda regla, oftast nær er verið að ræða eitt mál en stundum eru tekin fyrir tvö mál og þrjú. Það er alveg hægt að leggja fram pappíra um það og ég veit að forseti gæti verið okkur þingmönnum hjálpleg við að upplýsa okkur um hvernig slíkar umræður hafa farið fram um fleiri en eitt málefni ef það er vandi þingsins sem ég hygg að sé ekki.

Ég vænti þess að þeir sem hófu umræðuna um störf þingsins hafi komið sínum málum til skila, hvor á sinn hátt, og ég held að það hafi verið gott og nauðsynlegt. Það segir auðvitað ekki að þessari umræðu um atvinnumál í Ísafjarðarbæ sé lokið. Því miður eru næg tilefni til að tala um ástandið þar, á Vestfjörðum í heild, byggðaþróunina og tekjuþróunina, sem og annars staðar í kjördæmi okkar, Norðvesturkjördæmi. Því miður, hæstv. forseti, held ég að við munum þurfa að taka meiri tíma undir þinni stjórn til að ræða þau mál í framtíðinni.