133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

umræðuefni í athugasemdum.

[15:44]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég vildi upplýsa það í fyrsta lagi að ég hef lagt fram beiðni um utandagskrárumræðu vegna atvinnumála á Vestfjörðum, stöðu þeirra og aðgerða sem grípa þarf til til þess að styrkja samkeppnisstöðu atvinnulífs á Vestfjörðum og jafna hana, sem einnig mundi snerta það fyrirtæki sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson vakti hér athygli á, að Marel var að loka Póls á Ísafirði. Ég vildi bara vekja athygli forseta á því að þetta mál á ég inni sem utandagskrárbeiðni frá 9. febrúar. Ég óska eftir því að það fái að komast sem fyrst á dagskrá til að ræða um samkeppnisstöðu atvinnulífsins á Vestfjörðum og hvernig grípa megi þar inn í. Við munum eftir kosningaloforðum um jöfnun flutningskostnaðar og nær væri að ræða þetta mál í stærra samhengi og efnislega.

Ég tek að öðru leyti heils hugar undir þær áhyggjur sem komu fram varðandi stöðu fyrirtækisins Marels og það sem er af mörgum talin ósanngjörn framkoma af þess hálfu, sem sýnir litla samfélagslega ábyrgð. Ég vil í lokin vekja athygli á að ég hef lagt fram beiðni um utandagskrárumræðu um atvinnumálin á Vestfjörðum og vonast til að hún komist sem fyrst á dagskrá.