133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

umræðuefni í athugasemdum.

[15:49]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Í tilefni af þeim umræðum sem hér hafa orðið um það hvernig við högum þeim samtölum sem við eigum hvert við annað, þingheimur og forseti, undir liðnum fundarstjórn forseta er það alveg rétt sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði, ég sem formaður þingflokks Samfylkingarinnar gerði viðvart um áform hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur um að taka hér upp tiltekið mál. Það er af því að formaður þingflokksins er svo sáttfús og mildur, þ.e. formaður þingflokks Samfylkingarinnar, að hann reynir að greiða fyrir þingstörfum. Ef ég hefði vitað um þessa umræðu af hálfu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar hefði ég alveg verið til viðræðu um að freista þess að hliðra til umræðu af hálfu okkar, þingmanna Samfylkingarinnar, til þess að það sem hv. þingmaður taldi brýnt mál fengi hér komið á dagskrá þótt óformlegt væri.

Hins vegar er það rangt hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni að menn taki hér upp brýn mál til umræðu utan dagskrár og ef þeim finnist það ekki brýnt leggi þeir það fram sem fyrirspurn. Nei, heyrðu, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, sem hér ert búinn að vera lengur en á grönum má sjá, svona einfalt er ekki lífið hér, við skulum bara horfast í augu við það. Hér taka þingmenn oft og tíðum mál til umræðu utan dagskrár sem eru bara bölvuð vitleysa og eiga ekkert heima þar. Það er bara partur af veruleikanum sem við búum við. Það er auðvitað þingmönnum sjálfum að kenna hvernig það umræðuform hefur útþynnst með vissum hætti, eins og hv. þingmaður benti á. Ég er þeirrar skoðunar að það ætti að hverfa aftur til þess tíma sem hv. þingmaður ræddi hér, að menn tækju upp þau mál sem virkilega brýnt er að taka upp af því að þau koma upp með skömmum fyrirvara og þau verði rædd hér með þriggja tíma fyrirvara, eins og segir í þingsköpum. Það er alvöruumræða sem stendur undir nafni „utan dagskrár“.

Hitt formið sem hér hefur þróast þar sem menn leggja inn beiðnir um umræðu utan dagskrár um einhver mál sem þola kannski margra vikna bið varðar þá bara mál sem eru ekki þess virði að ræða þau utan dagskrár. Þá er hægt að ganga frá þeim með einhverjum öðrum hætti. Mér finnst sjálfum oft og tíðum sem við burðumst við að ræða mál utan dagskrár sem eru þess eðlis að þau eigi betur heima í formi fyrirspurna. Ég er þeirrar skoðunar. Þá komum við aftur að því sem er réttur þingmannsins, þingskapalögin eru einfaldlega þannig að það er ekki hægt að taka þennan rétt af þingmönnum nema um sé að ræða óvanalega stjórnsaman og yfirgangssaman formann þingflokks og þaðan af verri forseta Alþingis. Í þessum tilvikum báðum er um að ræða ákaflega milda og blíða einstaklinga þannig að það gerist ekki. Þetta er eitt af því sem þarf að skoða.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að hér ættu að vera umræður um störf þingsins á hverjum einasta degi og það ætti að vera gefinn sérstakur tími til þess. Það mætti þess vegna tvískipta honum. Þannig er það í öðrum þingum. Þá geta menn tekið upp svona mál sem þeim finnst brýn en eru kannski minni háttar og geymt hin stóru til raunverulegra umræðna utan dagskrár. Restinni má bara rusla í fyrirspurnatímana, (Forseti hringir.) oft og tíðum eiga þau mál best heima þar.