133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Þjóðskjalasafn Íslands.

642. mál
[15:53]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Þjóðskjalasafnið sem eru frá 1985.

Frumvarp þetta byggir á tillögum nefndar sem forsætisráðherra skipaði hinn 22. júní 2006 á grundvelli þingsályktunar sem samþykkt var hér í sölum Alþingis hinn 3. júní það sama ár þar sem ríkisstjórninni var falið að skipa nefnd til þess að skoða gögn sem snerta öryggismál Íslands, innra og ytra öryggi, á árunum 1945–1991 í vörslu opinberra aðila og gera tillögu um tilhögun á frjálsum aðgangi fræðimanna að þeim.

Í nefndina voru skipuð Páll Hreinsson, stjórnarformaður Persónuverndar, sem var einnig skipaður formaður nefndarinnar, Anna Agnarsdóttir, forseti Sögufélagsins, Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, Ólafur Ásgeirsson þjóðskjalavörður og Ómar H. Kristmundsson, formaður stjórnmálafræðiskorar félagsvísindadeildar Háskóla Íslands.

Nefndin lauk störfum hinn 9. febrúar sl. með því að afhenda Alþingi sérstaka skýrslu um starf sitt samkvæmt framangreindri þingsályktun. Er sú skýrsla jafnframt, frú forseti, fylgiskjal með þessu frumvarpi. Skýrslan er um margt fróðleg og hefur að geyma umfjöllun um nefndarstarfið og afmörkun þess, yfirlit yfir þau gögn sem til eru um innra og ytra öryggi íslenska ríkisins frá árunum 1945–1991, umfjöllun um þá lögvörðu hagsmuni sem geta staðið í vegi fyrir aðgangi að gögnum um öryggi íslenska ríkisins á þessum árum, umfjöllun um reglur um NATO-skjöl, um sérstakar þagnarskyldureglur og um rétt aðila að upplýsingum um sjálfa sig og einnig um upplýsingarétt almennings. Í lokakafla skýrslunnar er að finna sérstakar tillögur nefndarinnar sem þetta frumvarp snýst einmitt um og það er um þá breytingu sem við erum að fjalla hér um, um breytingu á lögum nr. 66/1985, um Þjóðskjalasafn Íslands.

Í almennri umfjöllun nefndarinnar um frumvarpið segir í skýrslunni að til þess að auðvelda aðgang fræðimanna að gögnum sem snerta öryggismál íslenska ríkisins á árunum 1945–1991 — og ég vek athygli, frú forseti, á því að þetta er mjög alvarlegt mál sem er engu að síður skemmtilegt að ræða og ég veit að hv. þingmenn … (Gripið fram í.) Við vitum vel að þetta er mjög athyglisvert mál sem ég held að allir þingmenn, sérstaklega hinn skeleggi formaður þingflokks Samfylkingarinnar, hefðu gott af því að hlusta á, ekki síst sá ágæti leynivinur. (Gripið fram í.)

Eins og ég var að segja segir í skýrslunni að til þess að auðvelda aðgang fræðimanna að gögnum sem snerta öryggismál íslenska ríkisins á árunum 1945–1991 er lagt til að stofnuð verði sérstök safnadeild við Þjóðskjalasafn Íslands, nokkurs konar öryggismálasafn þar sem þessi gögn verði varðveitt. Jafnframt er lagt til að ekki verði aðeins útbúin málaskrá yfir þau mál sem eru í deildinni heldur einnig þau skjöl sem tilheyra hverju máli. Um þetta vísast nánar tiltekið í a-lið 1. gr. frumvarpsins sem fjallar um öryggismálasafnið.

Þá segir í umfjöllun nefndarinnar að í gögnum um öryggismál íslenska ríkisins frá árunum 1945–1991 komi í undantekningartilvikum fyrir viðkvæmar einkalífsupplýsingar um nafngreinda einstaklinga. Að mati nefndarinnar ber að koma í veg fyrir að slíkar persónuupplýsingar komi fyrir almenningssjónir á grundvelli 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Til þess að raunsönn mynd fáist af öryggismálum íslenska ríkisins á árunum 1945–1991 og sagnfræðirannsóknum verði ekki of þröngur stakkur skorinn er á hinn bóginn lagt til að fræðimönnum verði veittur aðgangur að slíkum upplýsingum, svo og að upplýsingum um nöfn þeirra sem voru grunaðir um að ógna öryggi ríkisins á þessum tíma þannig að sögulegar staðreyndir málsins liggi fyrir. Aftur á móti er lagt til að á grundvelli 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar verði fræðimönnum meinað að skýra frá slíkum einkalífsupplýsingum með persónugreinanlegum hætti nema fyrir liggi samþykki þess sem í hlut á. Í samræmi við ákvæði 8. gr. upplýsingalaga frá 1996 er lagt til að þetta bann gildi í 80 ár frá því að hinar viðkvæmu einkalífsupplýsingar urðu til. Bannið tekur aðeins til umfjöllunar á persónugreinanlegum upplýsingum. Um þetta vísast nánar í 1.–4. mgr. b-liðar 1. gr. frumvarpsins.

Í ljósi sjónarmiða um friðhelgi einkalífs leggur nefndin til að nöfnum þeirra einstaklinga sem á lífi eru og sætt hafa slíkum rannsóknum verði haldið leyndum nema þeir sem í hlut eiga veiti samþykki sitt fyrir slíkri birtingu, en lagt er til í 5. mgr. b-liðar 1. gr. frumvarpsins að Þjóðskjalasafnið skrifi þessum einstaklingum og kanni hug þeirra til þess. Eðli máls samkvæmt eru þeir hagsmunir sem friðhelgi einstaklinga er ætlað að vernda einkum fyrir hendi í lifanda lífi. Eftir andlát þessara einstaklinga er ekki talin ástæða til að halda nöfnum þeirra leyndum, enda dvína þá verndarhagsmunirnir verulega og verður að telja að þá vegi þyngra almannahagsmunir af því að hægt sé að fara á hlutlægan hátt yfir sögu kaldastríðsáranna.

Til fræðimanna í skilningi b-liðar 1. gr. frumvarpsins teljast skv. 8. mgr. þeir sem hafa stundað fræðirannsóknir í hug- eða félagsvísindum og birt rannsóknir sínar á viðurkenndum vettvangi. Fræðimaður skal sýna fram á að gögn öryggismálasafns hafi mikilsverða þýðingu fyrir rannsókn sem hann vinnur að. Nánar um skilgreiningu á fræðimanni samkvæmt ákvæðinu segir í athugasemdum frumvarpsins að átt sé við hvern þann sem stundað hefur fræðirannsóknir í hug- eða félagsvísindum og birt rannsóknir sínar á viðurkenndum vettvangi óháð því hvort hann hafi lokið háskólaprófi á þessum þekkingarsviðum. Með hug- og félagsvísindum er m.a. átt við sagn-, félags- og stjórnmálafræði og aðrar þær fræðigreinar sem falla undir samnefnt fagsvið Rannsóknarmiðstöðvar Íslands. Birting á „viðurkenndum vettvangi“ felur í sér útgáfu fræðirita, birtingu greina í ritrýnd tímarit, flutning erinda á ráðstefnum fræðimanna eða birtingu á öðrum sambærilegum vettvangi.

Samkvæmt ákvæðinu skal fræðimaður sem hyggst fá aðgang að öryggismálasafni sem slíkur og þar með fá rýmri aðgangsheimild en aðrir sækja um sérstakt leyfi til þess konar aðgangs að skjölum öryggismáladeildar. Skal fræðimaður þá jafnframt sýna fram á með rökstuðningi hvers vegna skjöl með persónugreinanlegum upplýsingum hafi þýðingu fyrir rannsókn hans. Þjóðskjalavörður sker úr um ef vafi leikur á því hvort skilyrði þessi séu uppfyllt. Fræðimaður getur síðan kært synjun þjóðskjalavarðar um aðgang að þess háttar skjölum til menntamálaráðherra.

Til þess að ákvæði 3., 4. og 6. mgr. b-liðar þessa frumvarps nái markmiðum sínum, þ.e. að tryggja einkalífsvernd, er lögð refsing við brotum á ákvæðunum í 10. mgr. Refsirammi ákvæðisins er í samræmi við 229. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Í 11. mgr. er jafnframt mælt fyrir bótaskyldu séu ákvæði 3. eða 4. mgr. brotin. Er áréttað í athugasemdum frumvarpsins við 11. mgr. að einfalt gáleysi nægi svo að dæma megi tjónvald til að greiða tjónþola bætur fyrir miska.

Í c-lið frumvarpsins er fjallað um upplýsingarétt hins skráða. Þar segir að Þjóðskjalasafninu sé skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að skjölum í öryggismálasafni ef þau hafa að geyma persónugreinanlegar upplýsingar um einstaklinginn sjálfan. Þá er tekið fram í greininni að ef í skjali koma jafnframt fram persónugreinanlegar upplýsingar um aðra einstaklinga sem falla undir 3. eða 4. mgr. b-liðar frumvarpsins skuli afmá þær upplýsingar úr ljósriti eða afriti skjals áður en aðila er veittur aðgangur að því nema sá sem í hlut á hafi samþykkt opinbera birtingu upplýsinganna.

Í d-lið 1. gr. frumvarpsins er fjallað um upplýsingarétt almennings. Þar segir að Þjóðskjalasafni Íslands sé skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að skjölum öryggismálasafns, enda komi þar ekki fram upplýsingar sem falla undir ákvæði 3. eða 4. mgr. b-liðar frumvarpsins sem fjalla um persónugreinanlegar upplýsingar um lifandi einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Ef slíkar upplýsingar eiga aðeins við um afmarkaðan hluta skjals segir í ákvæðinu að afmá skuli þær upplýsingar og veita almenningi aðgang að öðru efni skjalsins.

Í e-lið 1. gr. frumvarpsins er síðan fjallað um afhendingu utanríkisráðuneytisins á gögnum til öryggismálasafnsins. Segir í ákvæðinu að áður en gögn utanríkisráðuneytisins, sem falla undir öryggismálasafn skv. a-lið frumvarpsins, eru afhent safninu skuli þau skoðuð og skráð til afhendingar í samræmi við fyrirmæli Þjóðskjalasafns Íslands. Segir jafnframt í ákvæðinu að skjöl sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig með þjóðréttarsamningi við Norður-Atlantshafsbandalagið að halda leyndum skuli ekki afhent öryggismálasafninu. Þá segir einnig í ákvæðinu að skjöl sem hafa að geyma upplýsingar um virka varnar- og öryggishagsmuni íslenska ríkisins skuli ekki afhent öryggismálasafni ef

a. þau hafa ekki náð þrjátíu ára aldri eða

b. sérstök ákvæði laga um þagnarskyldu takmarka rétt almennings til aðgangs að þeim.

Í athugasemdum í greinargerð um þessa grein sérstaklega kemur fram að í vörslum utanríkisráðuneytis sé að finna mikinn fjölda skjala er snerta öryggismál Íslands á árunum 1945–1991. Þannig sé áætlað að í hinu almenna skjalasafni ráðuneytisins sé að finna 26 þús. möppur eða um 800 hillumetra frá umræddu tímabili. Þar af áætlar ráðuneytið að um 5% skjalanna kunni að geyma viðkvæmar upplýsingar vegna þessara öryggishagsmuna. Sé því óhjákvæmilegt að farið verði í gegnum allar þessar möppur, gögn skoðuð og þau skráð til afhendingar í samræmi við fyrirmæli Þjóðskjalasafns Íslands. Vegna öryggishagsmuna íslenska ríkisins er ekki hægt að afhenda öll skjöl Þjóðskjalasafni Íslands. Í greininni er svo mælt fyrir að skjöl sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig með þjóðréttarsamningi við NATO að halda leyndum skuli ekki afhent öryggismálasafni Þjóðskjalasafns Íslands. Þessi undanþága er í samræmi við undanþáguákvæði 2. gr. upplýsingalaga og er talin nauðsynleg svo að íslenska ríkið geti virt þær þjóðréttarlegu skuldbindingar sem það hefur undirgengist með aðild að Norður-Atlantshafsbandalaginu. Þetta ákvæði undanþiggur þó aðeins hluta NATO-skjalanna. Þannig ber, að teknu tilliti til NATO-reglna, að afhenda NATO-skjöl sem ekki hafa verið árituð sem trúnaðarskjöl. Hið sama gildir um trúnaðarskjöl sem síðar hafa fengið lægra trúnaðarstig og fengið að lokum merkinguna „NATO UNCLASSIFIED“.

Í greininni er síðan mælt fyrir um tvær undanþágur frá því að skjöl skuli afhent öryggismálasafni Þjóðskjalasafns Íslands á grundvelli öryggishagsmuna ríkisins. Undanþágurnar eru í samræmi við gildandi reglur um takmörkun á aðgangi almennings að upplýsingum um öryggis- og varnarmálefni hjá stjórnvöldum samkvæmt upplýsingalögum, nr. 50/1996, og samkvæmt sérstökum þagnarskyldureglum.

Að lokum, frú forseti, er í f-lið frumvarpsins kveðið á um kæruheimild til menntamálaráðherra vegna synjunar Þjóðskjalasafns um að veita aðgang að gögnum öryggismálasafnsins.

Virðulegi forseti. Samkvæmt því sem ég hef hér rakið er réttur til aðgangs að gögnum öryggismálasafns í frumvarpi þessu þrískiptur: 1) réttur fræðimanna til aðgangs að gögnunum, 2) réttur hins skráða að upplýsingum um sjálfan sig, 3) réttur almennings til aðgangs að gögnum safnsins.

Ég tel að nefnd sú sem vann þetta frumvarp hafi skilað góðu verki. Skýrsla nefndarinnar er um margt mjög fróðleg og frumvarpið mikilvægt til að tryggja að upplýsingar og sögulegur fróðleikur um öryggismál íslensku þjóðarinnar á árunum 1945–1991 skili sér til komandi kynslóða um leið og gætt er að því að tryggja mikilvæga einkalífshagsmuni þess fólks sem við sögu kemur sem og virka varnar- og öryggishagsmuni íslensku þjóðarinnar.

Ég vil einnig geta þess, frú forseti, að að þessu frumvarpi samþykktu og vegna allrar þeirrar vinnu sem fram undan er varðandi skráningu gagna og skjala í þessum mörg hundruð hillumetrum sem um er að ræða hefur verið rætt við þjóðskjalavörð um að hugað verði að því hvort hægt verði að vinna þessa umfangsmiklu vinnu að einhverju eða öllu leyti utan höfuðborgarsvæðisins.

Að lokum legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. menntamálanefndar að lokinni þessari umræðu.