133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Þjóðskjalasafn Íslands.

642. mál
[16:31]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er gott að hv. þingmaður tekur vel í hugmyndir og tillögur varðandi vinnslu þessa gríðarlega mikilvæga verkefnis sem mun upplýsa okkur um það hvernig sagan átti sér stað og hvernig hún mótaðist og myndaðist.

En ég get ekki að því gert að þegar þessi snöfurmannlegi þingmaður, mikill og góður leynivinur, kemur hingað upp finnst mér eins og um ákveðin vonbrigði sé að ræða hjá honum. Vonbrigði yfir því að fræðimenn hafi komst að þeirri niðurstöðu að lögreglan hafi átt frumkvæðið að hlerununum en ekki stjórnmálamenn, sem hv. þingmaður vill helst að hafi verið í Sjálfstæðisflokknum, og vonbrigði yfir því, sem fram kemur í skýrslunni, að ávallt hafi verið kveðinn upp dómsúrskurður sem heimilaði hleranir áður en þær voru framkvæmdar. Því má ekki gleyma að þetta var allt gert samkvæmt lögum, því lögformlega ferli sem kveðið er á um í stjórnskipan okkar. Mér finnst, frú forseti, eins og einhverra vonbrigða gæti yfir því að menn skuli ekki hafa upplýst eitthvert leynimakk.

En hitt er annað mál, og við skirrumst ekki við að viðurkenna það, að Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf staðið vörð um öryggishagsmuni ríkisins. Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf tekið afstöðu með bandalagsþjóðum sínum sem eru í NATO. Það er engin launung á því að viðhorfið var annað og andrúmsloftið var annað á þessum árum, svonefnt kaldastríðsandrúmsloft sem við verðum að taka tillit til þegar við skoðum söguna. Sjálfstæðismenn hafa alltaf skipað sér í sess með hinum vestrænu þjóðum. Aðrir flokkar, aðrir áar flokka sem nú eru starfandi á þingi, tóku afstöðu með öðrum stefnum, öðrum sjónarmiðum. Þau sjónarmið hafa sem betur riðað til falls og hvergi eða á fáum stöðum er eftir þeim starfað.