133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Þjóðskjalasafn Íslands.

642. mál
[16:45]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta er fróðleg umræða sem hér fer fram og mikilvæg. En nú er verið að opna á gögn sem hafa farið leynt um áratugaskeið. Ég átti samræður um daginn við konu sem kemur frá einu þeirra heimila sem var hlerað í tengslum við atburðina við Alþingishúsið í lok marsmánaðar árið 1949. Hún sagði mér að á sínu heimili hefðu alltaf verið uppi grunsemdir um að heimilið hefði verið hlerað vegna þess að heimilisfaðirinn tengdist baráttunni gegn því að Ísland yrði sett inn í hernaðarbandalagið NATO.

En þegar hún fékk ekki alls fyrir löngu bréf, stimplað af íslenska ríkinu, sem staðfesti að heimilið hefði verið hlerað, heimilissíminn á bernskuheimili hennar hefði verið hleraður, þá sagði hún að það hefði farið um sig hrollur og ónotakennd. Ég segi þetta til að minna á að við erum að tala um alvörumál. Við erum að tala um brot á friðhelgi heimilisins og einstaklinga.

Nú liggur hér fyrir þinginu frumvarp til laga um breytingu á lögum um Þjóðskjalasafn Íslands þar sem gert er ráð fyrir því að komið verði á fót sérstöku öryggismálasafni innan Þjóðskjalasafnsins. Í frumvarpinu er einnig kveðið á um hvernig aðgengi fræðimanna að upplýsingum í þessu öryggismálasafni skuli hagað og jafnframt aðgengi almennings að gögnum.

Þetta er afrakstur nefndar sem skipuð var af forsætisráðherra síðastliðið sumar eða síðastliðið vor, 22. júní. En nefndinni var falið að gera tillögur um þetta efni og þá fyrst og fremst hvernig háttað skyldi aðgengi fræðimanna að upplýsingum um gögn sem snerta öryggismál Íslands, innra og ytra öryggi eins og það er kallað, á árunum 1945–1991.

Um þetta mál er þverpólitísk samstaða að því leyti að menn vilja opna þessar upplýsingar. Menn vilja ganga mislangt í því efni. Ég vildi gjarnan ganga enn lengra en gert er í þessu frumvarpi sem ég þó tel vera mikilvægt að flestu leyti.

Þegar þetta málefni kom til umræðu í þinginu ekki alls fyrir löngu og þá í tengslum við að skýrsla nefndarinnar hefði komið fram komu hér í ræðupúlt ýmsir fulltrúar stjórnarmeirihlutans, bæði úr Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, og fjölluðu um þessa skýrslu umræddrar nefndar sem væri hún sagnfræðiplagg, sem hún er að sjálfsögðu ekki þótt ýmislegt í skýrslunni gefi tilefni til að ætla að hér sé um sagnfræðirannsóknir að ræða. Á blaðsíðu 13 í skýrslunni þar sem vísað er í nokkrar athugasemdir segir m.a., með leyfi forseta:

„Ekki verður séð að neinn hafi verið ákærður eða handtekinn á grundvelli þeirra gagna sem aflað var með hlerunum.“

Þegar skýrslan var kynnt okkur þingflokksformönnum fyrir nokkru, þ.e. þegar hún kom út, þá spurði ég hverju það sætti að þessi staðhæfing væri sett fram. Var mér þá sagt að þetta væri einvörðungu byggt á þeim gögnum sem nefndarmenn hefðu séð en þetta væri engin sagnfræðileg niðurstaða.

Þetta er atriði sem er mikilvægt að leggja mjög ríka áherslu á, að hér er ekki um neina sagnfræðilega úttekt að ræða heldur er einvörðungu um að ræða hvernig sagnfræðingum skuli veittur aðgangur að þessu efni, þ.e. gögnum sem snúa m.a. að njósnum og hlerunum. Ég ætla að leyfa mér að gera athugasemd við orðalag í frumvarpinu. En þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Óheimilt er fræðimanni að skýra frá eða miðla á annan hátt persónugreinanlegum upplýsingum um lifandi einstaklinga sem taldir voru geta ógnað öryggi ríkisins samkvæmt skjölum safnsins nema sá samþykki sem í hlut á.“

Þetta er orðalag, hæstv. forseti, sem mér finnst ekki ganga upp. Þetta er hlutdrægt orðalag. Mér þætti vænt um að heyra álit hæstv. ráðherra á gagnrýni minni hvað þetta snertir. Hvers vegna ekki að vísa í hleranir? Hvers vegna ekki að segja: Óheimilt er fræðimanni að skýra frá eða miðla á annan hátt persónugreinanlegum upplýsingum um lifandi einstaklinga sem voru hleraðir eða njósnað var um samkvæmt skjölum safnsins nema sá samþykki sem í hlut á? Þetta er óhlutdrægt orðalag. Hér er verið að vísa í njósnir og hleranir. Um það er að tefla. Síðan er það matskennt hver er talinn ógna öryggi ríkisins. Fyrir utan að það eru áhöld um hvað vakti fyrir hlerendum, þeim sem hleruðu, t.d. árið 1961. Þá voru símar hleraðir í tengslum við samþykki Alþingis á frumvarpi sem tengdist landhelgisdeilunni.

Getur það verið að menn hafi einfaldlega verið að njósna um viðhorf pólitískra andstæðinga sinna? Það eru ýmsir sem telja að svo hafi verið. Í samræmi við þetta legg ég til að orðalagi greinarinnar verði breytt og það verði óhlutdrægara en hér er gefið til kynna.

Annað varðandi öryggi ríkisins. Í skýrslunni kemur fram að hleranir hafi verið stundaðar í tengslum við ráðherrafund NATO árið 1968. Í skýrslunni segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Nefndin hefur alltraustar heimildir um verklag við hleranir sem fram fóru árið 1968. Lögreglustjóra barst vitneskja um að hópur útlægra Grikkja væri væntanlegur til Reykjavíkur til að taka þátt í mótmælum meðan á fundi utanríkisráðherra NATO stæði í Reykjavík í júní 1968. Lögreglustjóri frétti í gegnum samstarfsaðila sína á Norðurlöndum, lögreglustjórana í Kaupmannahöfn og Ósló, að þessir menn væru tilbúnir í átök og skemmdarverk, einkum gagnvart utanríkisráðherra Grikklands sem var væntanlegur á ráðherrafundinn. Einnig fylgdu upplýsingar um tengiliði þeirra hér á landi.“

Skemmdarverk, við þekkjum skemmdarverk í tengslum við svona fundi, að mála á NATO-skipin var t.d. eitt sem einhvern tímann var skilgreint sem skemmdarverk. Og við þekkjum það náttúrlega í tengslum við komu, var það ekki varaforseti Kína, þegar menn gerðu barnaskólann í Keflavík, Reykjanesbæ, að fjöldafangelsi fyrir alla þá sem höfðu augnbúnað sem líktist Kínverjum, þeir voru allir lokaðir þar inni? Af því varaforseti Kína mátti ekki berja þá augum. Þeir yrðu að vera svo langt frá honum að örugglega væri hægt að koma í veg fyrir að hann yrði fyrir nokkurri sjónmengun af andróðri andstæðinga einræðisstjórnarinnar í Kína. Þetta var einmitt einræðisstjórn sem þessir lýðræðissinnar vildu andæfa árið 1968.

Þá kemur í ljós að símar þeirra og tengiliða þeirra hér á landi voru hleraðir. Ógnaði þetta á einhvern hátt öryggi íslenska ríkisins? Ég bara spyr. Og af því hæstv. sjávarútvegsráðherra er kominn hingað þá vil ég rifja upp að í tengslum við landhelgisdeiluna 1961 voru stundaðar hleranir, m.a. á stjórnmálamenn, á skrifstofum verkalýðssamtaka og dagblaða. Og menn velta því fyrir sér hvort menn hafi verið að hlera til þess að komast að því hver viðhorf pólitískra andstæðinga væru í raun. Það eru ýmsir sem halda þessu fram. Það hefur ekkert verið sannað eða afsannað í því efni.

Ég nefni þetta til að hvetja til þess, eða færa rök fyrir því að við eigum að breyta orðalagi í frumvarpinu. Við eigum að breyta því þannig að í stað þess að segja að símar þeirra sem voru taldir ógna öryggi ríkisins hafi verið hleraðir, samkvæmt skjölum safnsins, þá eigum við einfaldlega að vísa í hleranir, þ.e. þeirra sem voru hleraðir eða njósnað var um samkvæmt skjölum safnsins, nema sá samþykki sem í hlut á o.s.frv. Vegna þess að þetta er hlutdrægt orðalag. Þessi gögn eru hvorki sagnfræðigögn né nokkurs konar niðurstaða í dómsmálum. Þetta eru gögn sem kveða á um hvernig heimila eigi fræðimönnum aðgang að gögnum. Síðan komast menn að niðurstöðu.

Ég gæti farið út í langar umræður um þetta efni. Ég vék líka að því áðan, eða varaði við því að menn væru að hrapa að einhverjum niðurstöðum og ég vék að því vegna þess að hv. formaður menntamálanefndar, Sigurður Kári Kristjánsson, heyrði ekki upphaf ræðu minnar þar sem ég vísaði í hleranirnar í mars og byrjun aprílmánaðar árið 1949. En í skýrslu þeirrar ágætu nefndar sem nýlega hefur skilað af sér segir að ekki verði séð af gögnum að neinn hafi verið sakfelldur eða handtekinn vegna þess sem fram hefði komið í hlerunum.

Ég held að við eigum ekki að gefa okkur neinar niðurstöður í þessu efni. Það kann vel að vera að það komi ekki fram í þeim gögnum sem nefndin hafði á milli handa eða rannsakaði. Ég ætla ekki að leyfa mér að efast neitt um það. En það er ekki hægt að kveða upp úr á afdráttarlausan hátt um það efni og verður þá að skoða málið í heild sinni, málaferlin og réttarhöldin yfir því fólki sem var reynt að svipta ærunni, borið ljúgvitni í réttarsal, svipt helgustu mannréttindum, tekin af því kosningarréttur. Við skulum ekki gefa okkur neitt í því efni, engar niðurstöður í þeim efnum.

Hæstv. forseti. Ég fagna því að þetta skuli vera komið fram, að þessi vinna skuli vera komin áleiðis. Það er mjög mikilvægt. Ég hygg að við þurfum að stíga stærri skref í þessum efnum. Ég velti því t.d. fyrir mér hvort ekki sé rétt að opna frekara aðgengi að gögnum. Er það ekki rétt skilið hjá mér að ef viðkomandi einstaklingur sem var hleraður, eða afkomendur hans, veita heimild til þess að birta nafn hans þá sé það heimilt? Þá skuli það gert en ella ekki.

Ég vísa t.d. í bréf frá lögreglunni í Reykjavík nú í nóvember til nefndarinnar en þar er vísað í atburð frá 3. apríl 1959 þar sem segir frá samtali fulltrúa lögreglunnar og utanríkisráðherra þar sem rætt hafi verið um símhlustun og nafn nefnt í því sambandi. Það kemur reyndar fram í samtalinu að utanríkisráðherrann hafi lýst yfir grunsemdum um að hann væri sjálfur hleraður. En hvaða nöfn voru þarna nefnd fáum við ekki að vita ef viðkomandi er látinn eða heimild fæst ekki til að birta nafnið.

Þá segja menn, ef þeir ganga út frá því að þetta séu allt einhverjir einstaklingar sem hafi haft eitthvað slæmt á samviskunni, ógnað öryggi ríkisins, að við eigum að verja þann einstakling. Við eigum að verja mannorð þess, hvers vegna þarf að birta nafnið og sverta mannorðið?

Hæstv. forseti. Þessu er öfugt farið. Þetta eru ekki sakamennirnir. Að því marki sem við getum yfirleitt talað um sakamenn þá liggur sökin, að mínu mati, hjá þeim sem hleruðu en ekki hinum sem vildu berjast gegn herforingjaofbeldi fasistastjórnar í Grikklandi eða höfðu einhverjar skoðanir á landhelgismálum. Eða voru andvígir því að Ísland yrði sett inn í hernaðarbandalagið NATO. Þetta eru ekki sakamennirnir. Í mínum huga er ekki verið að sverta nafn nokkurs manns með því að benda á að hann hafi staðið í lýðræðislegu andófi eða mannréttindabaráttu. Það eru hinir. Það eru miklu frekar hinir sem við eigum, eða samfélagið á sökótt við að því marki sem við viljum nota þau orð eða þau hugtök. Mér er nær að tala um kerfi og um ráðandi öfl í samfélaginu fremur en einstaklinga.

Ég tel mjög mikilvægt að það verði upplýst hvað hér hefur farið fram. Það er mjög mikilvægt að svo verði gert fyrir þá sem í hlut eiga, að sjálfsögðu fyrir söguna og kannski til þess að draga lærdóma fyrir framtíðina. Því miður er ástæða til að leggja áherslu á með þessi mál, þótt þau heyri fortíðinni til, svona í árum talið, þá má það ekki henda að eitthvað leifi af vinnubrögðunum. Þótt ég vilji ekkert gefa mér í þeim efnum en það var óþægilega lengi sem stundaðar voru hér pólitískar njósnir. Því þetta verður ekki kallað neinum öðrum nöfnum en pólitískar njósnir.

Þá er ég að vísa til þess sem gerðist hér 1949. Ég er að vísa til heimsóknar Eisenhowers í byrjun sjötta áratugarins. Ég er að vísa í landhelgisdeiluna árið 1961. Ég er að vísa í hleranir í tengslum við heimsókn Lyndons B. Johnsons árið 1963. Ég er að vísa í heimsókn fulltrúa grísku fasistastjórnarinnar 1968. Að sjálfsögðu var hér fyrst og fremst um að ræða pólitískar njósnir og um þær þarf að sjálfsögðu að upplýsa.