133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Þjóðskjalasafn Íslands.

642. mál
[17:11]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vara menn við að gerast mjög heilagir í þessum efnum. Það er nýbúið að upplýsa að í tengslum við samninginn við Bandaríkjaher eða Bandaríkjastjórn 1951 hafi að öllum líkindum verið brotin stjórnarskrá Íslands af stjórnvöldum og alveg fram á þennan dag. Þar hefur verið gerður leynisamningur þar sem farið var á bak við þingið og þjóðina og að þar hafi verið brotið gegn stjórnarskrá Íslands.

Maður vill að sjálfsögðu trúa því að dómstólar hafi á öllum tímum verið óhlutdrægir og óvilhallir en, hæstv. forseti, ég ætla að leyfa mér að efast um að þeir hafi alltaf verið það á þessum tíma. Þar vísa ég í hin alræmdu réttarhöld þegar íslenskir verkalýðssinnar voru dæmdir til ærumissis. Reyndar er æra þeirra bjartari en flestra annarra manna í mínum huga en þeir voru sviptir mannréttindum. Þeir voru sviptir kosningarrétti af dómstólum sem ég leyfi mér að efast um að hafi verið óhlutdrægir. Ég ætla að halda því fram.

Það bíður hins vegar sagnfræðinnar og sagnfræðinga að rannsaka þessa hluti í kjölinn. Það þarf að sjálfsögðu að gera. Forsenda þess er að fá aðgang að öllum upplýsingum og þar á að sjálfsögðu líka að rannsaka líka hvernig dómsvaldið kom fram, hvort það hafi brugðist skyldum sínum, sem ég tel því miður allt benda til að það hafi gert.