133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Þjóðskjalasafn Íslands.

642. mál
[17:14]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég hef fylgst með þessari umræðu og það sem fær mig til að taka til máls er þátttaka hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar í henni. En af því að hann er lögfróður maður þá langar mig að spyrja hv. þingmann um nokkuð og fá viðhorf hans til þess. Það hefur ítrekað komið fram hjá hæstv. dómsmálaráðherra að hann telji að eftir að lög voru sett, að mig minnir 1951, hafi allar hleranir byggst á því að viðkomandi væru grunaðir um glæpsamlega starfsemi eða innflutning á eiturlyfjum. Mig langar þess vegna að heyra frá hv. þingmanni hvort hann telji að á grundvelli þess hafi verið eðlilegt að fella úrskurð um að hlera síma hjá þeim aðilum sem hlerað var hjá, m.a. að eðlilegt væri að menn kvæðu upp úrskurð um að slíkar hleranir færu fram hjá alþingismönnum, sem eiga að njóta friðhelgi samkvæmt stjórnarskránni.

Mér fyndist ástæða til þess að hv. þingmaður tjáði sig um þetta, hvort hann sem lögfræðingur telji að þetta hafi verið eðlilegar dómsuppkvaðningar á grundvelli þeirra laga sem hæstv. dómsmálaráðherra hefur ítrekað sagt heimila hleranir vegna gruns um glæpsamlegt athæfi eða innflutning á eiturlyfjum.