133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Þjóðskjalasafn Íslands.

642. mál
[17:24]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Hæstv. forseti. Hér hafa átt sér stað afar athyglisverðar og merkilegar umræður, umræður sem ekki oft fara fram á Alþingi Íslendinga, þ.e. umræður um hleranir eða það sem mætti kalla umræður um njósnir. Eðlilega má telja þetta með merkari umræðum sem hér hafa farið fram.

Miðað við þann tón sem sleginn hefur verið í umræðunni má segja að annars vegar hafi menn verið að skoða málið efnislega út frá þeirri þingsályktunartillögu sem lögð var fyrir og því frumvarpi sem er til umræðu og byggir m.a. á þingsályktun sem formenn allra þingflokka fluttu. Það sýnir einmitt hina pólitísku samstöðu um þetta mál, viljinn til að láta sannleikann koma upp á yfirborðið, því að sannleikurinn gerir okkur frjálsa í þessu máli eins og öðru. Það að formenn allra þingflokka skulu hafa staðið að þeirri þingsályktun lýsir einmitt þessum þverpólitíska vilja til að draga sannleikann fram. Annars vegar hefur umræðan snúist um efni þess þingmáls sem hér er til umræðu og hins vegar má segja að umræðan hafi snúist um pólitískt uppgjör frá þeim tíma sem aðallega er til umræðu, þ.e. kaldastríðsárin svokölluðu.

En um hvað snýst málið? Það snýst um að opna þau leyndarskjöl sem eru til staðar, fleiri hillumetrar af leyndarskjölum sem hafa safnast í gegnum tíðina, upplýsingar sem ekki hafa verið aðgengilegar, hvorki fræðimönnum né almenningi og einhverjar slíkar munu, eins og fram hefur komið í ræðum, eðli málsins samkvæmt ekki verða opnaðar og gerðar aðgengilegar þar sem þjóðarhagsmunir eru í húfi. En meginmarkmiðið með því þingmáli sem er til umræðu og efni þess fjallar einmitt um að opna og hreinsa í rauninni þær dylgjur sem uppi hafa verið þar sem menn hafa ef til vill verið að reyna að slá pólitískar keilur, notfæra sér þetta mál til að slá pólitískar keilur og er að sjálfsögðu ekki mjög faglegt. En í tengslum við þetta mál verða menn alltaf að hafa í huga hvenær hleranir eða njósnir áttu sér stað, við hvaða aðstæður þær voru. Eins og komið hefur fram á allra síðustu árum hafa margar fræðilegar ritgerðir og bækur verið skrifaðar einmitt um kaldastríðsárin í heiminum öllum og auðvitað teygði það andrúmsloft sig hingað til Íslands. Allir muna eftir úr fréttum njósnagræjum við Kleifarvatn og ýmsum slíkum fréttum sem upp hafa komið. Við þekkjum frá Noregi mál sem eru jafnvel frá seinni tíma um Arne Treholt og önnur mál sambærileg sem upp hafa komið í Noregi. Við munum eftir McCarthy-tímabilinu í Bandaríkjunum þar sem gengið var mjög grimmilega fram í að leita eftir upplýsingum. Það var sem sagt ákveðið ástand þar sem heimurinn tókst á um pólitíska hugmyndafræði tveggja póla. Auðvitað barst þetta hingað til Íslands. Það segir sig sjálft og við þekkjum bæði af fræðiritum og bókum um CIA-skýrslur og þar fram eftir götunum.

Þess vegna er mikilvægt að fá sannleikann upp í þessu máli og um það snýst málið fyrst og fremst, að fá sannleikann upp. Í stað þess að fara í langar umræður um hver gerði hvað í fortíðinni eigum við að fá sannleikann fram, en hvað ætlum við svo að gera? Hvað ætla menn síðan að gera með það? Komið hefur fram að mörg af þeim málum sem hugsanlega kunna að hafa valdið sekt eru orðin fyrnd í dag. Meginmálið, virðulegur forseti, í þessu er að sjálfsögðu að læra af reynslunni þannig að sambærilegir hlutir muni ekki eiga sér stað hér.

Við þekkjum umræður m.a. frá þeirri hörku sem hefur verið í Bandaríkjunum á allra síðustu árum, ekki síst í tíð Bush-stjórnarinnar, þar sem svipuð harka hefur komið fram og það er væntanlega ástand sem við viljum ekki hafa hér. Við viljum forðast það og viljum ekki að það endurtaki sig sem gerðist hér áður. Þess vegna erum við að ræða þetta. Þess vegna er þingmálið flutt og við þurfum að hafa það líka í huga, virðulegi forseti, að hér er allt önnur heimsmynd og allt aðrar aðstæður í samfélaginu en voru þá. Samfélag okkar á tímum kalda stríðsins tók náttúrlega mið af þeirri hörðu deilu sem klauf þjóðina í tvennt en þeir pólar hafa í rauninni bráðnað þannig að hér hefur skapast allt önnur pólitísk sýn og allt annað andrúmsloft og það sem líklega mestu máli skiptir, virðulegi forseti, er að samfélag okkar hefur opnast. Við höfum breytt lögum okkar þannig að meiri upplýsingaskylda er. Fjölmiðlar hafa losnað úr hinum pólitísku böndum að mestu og veita stjórnvöldum á hverjum tíma meira aðhald en áður var. Við erum því að upplifa hér allt öðruvísi tíma, miklu opnara samfélag og að mörgu leyti betra samfélag, held ég að við getum verið sammála um, en var áður. Samfélagið hefur þróast á jákvæðan hátt. Það er það sem skiptir máli í þeirri umræðu sem hér er, að við eigum að draga lærdóm af fortíðinni þannig að við þurfum ekki að eiga það á hættu að þingmenn eða einstaklingar sæti njósnum af óskilgreindu tilefni eins og gerðist á kaldastríðsárunum. Og væntanlega ef við skoðum þó ekki væri annað en Norðurlöndin hafa flestir flokkar tengst slíkum hlerunum eða slíkum njósnum með ýmsum hætti. Við þekkjum sögur frá Noregi, við þekkjum sögur frá Danmörku og jafnvel á Íslandi. Meginatriðið er, virðulegi forseti, að læra af mistökum fortíðarinnar þannig að samfélag okkar verði opnara og heiðarlegra en var á þeim tíma sem er löngu horfinn til allrar hamingju.